140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[11:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að umræða um landamærahindranir á Norðurlöndum skuli hafa verið sett á dagskrá þingsins. Þessa dagana fer fram sams konar umræða í þjóðþingum hinna norrænu ríkjanna. Það er í samræmi við tilmæli frá norrænu landamæranefndinni, sem kölluð er Grensehindringsforum upp á norræna tungu, sem starfar í umboði samstarfsráðherra Norðurlanda. Þessi umræða fer því fram á öllum Norðurlöndum um þessar mundir.

Landamærahindranir sem við köllum líka stjórnsýsluhindranir hafa notið forgangs í norrænu samstarfi mörg undanfarin ár og á vegum norrænu ráðherranefndarinnar hefur verið unnið skipulega að afnámi þeirra eftir ýmsum leiðum. Markmiðið er auðvitað okkur hv. þingmönnum öllum ljóst, þ.e. við getum unnið, numið og starfað þvert á landamærin á Norðurlöndunum og horfum á þau sem eitt svæði.

Þessi vettvangur um landamærahindranir, Grensehindringsforum, tók til starfa á árinu 2007 og var það í samræmi við ákvæði forsætisráðherra Norðurlanda. Í þessari nefnd sitja gamalreyndir stjórnmálamenn og embættismenn og hefur nefndin umboð til að þrýsta á þar til bær stjórnvöld á Norðurlöndum að þau beiti sér fyrir afnámi óþarfahindrana í stjórnsýslu landanna sem koma í veg fyrir að norrænir samstarfssamningar nái fram að ganga.

Það er óhætt að segja að til að byrja með var ekki endilega gert ráð fyrir því að landamærahindranir yrðu varanlegt viðfangsefni í norrænu samstarfi. En í raun og veru er það svo að án norrænnar lagasamræmingar koma í sífellu nýjar hindranir fram. Við sjáum það að á Norðurlöndunum eru aðstæður til að mynda mismunandi þegar kemur að innleiðingu á tilskipunum Evrópusambandsins. Ekki eru öll Norðurlöndin í Evrópusambandinu. Ísland og Noregur eru utan þess, þannig að staðan er annars eðlis þar en í Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku, svo ekki sé minnst á sjálfsstjórnarlöndin Færeyjar, Grænland og Álandseyjar. Mismunandi túlkun og beiting þessara tilskipana er þekkt vandamál í löndunum og getur leitt til nýrra hindrana. Það má því eiginlega segja að á meðan lagaramminn þróast á Norðurlöndum er þetta viðfangsefni komið til að vera.

Núna er í undirbúningi að móta sameiginlega norræna stefnu um starfið gegn landamærahindrunum. Sú stefna á að gilda frá árinu 2014 og því er ljóst að við lítum á þetta sem forgangsmálefni sem verði áfram til umræðu.

Helsingfors-samninginn má kalla stofnskrá norræns samstarfs. Á honum hvíla hinir eiginlegu norrænu samningar sem voru gerðir til að auðvelda flutninga fólks til lengri eða skemmri tíma milli landanna og stuðla þannig að samkennd hinna norrænu frændþjóða, efla þekkingu á Norðurlöndum og treysta samkeppnisfærni Norðurlanda sem svæðis. Það hefur auðvitað líka verið mikið áhersluefni á undanförnum árum í norrænu samstarfi að horfa á Norðurlöndin sem eitt svæði og hvernig við getum nýtt okkur það til framdráttar, til að mynda þegar kemur að markaðssetningu á norrænum afurðum, norrænni menningu og fleiru. Ég held að óhætt sé að segja að þar eru mjög mikil sóknarfæri, ég nefni til dæmis norræna tölvuleikjaverkefnið sem hefur tekist einstaklega vel. Núna er kominn vaxtarsproti sem er norræn útflutningsskrifstofa á norrænni tónlist sem ég held að sé mjög spennandi verkefni. Liður í því að við höldum þessari norrænu markaðssetningu og norrænu hugmyndafræði á lofti er auðvitað að við upplifum sjálf þessa samkennd á svæðinu, við sem búum hérna og getum ferðast auðveldlega á milli og unnið og numið á Norðurlöndunum.

Ég nefni samninga um frjálsa för innan Norðurlanda, sameiginlegan vinnumarkað, frelsi til að stunda nám í því norræna ríki sem hver og einn kýs, samning um almannatryggingar og um félagslega aðstoð og þjónustu. Þessir samningar hafa verið og eru enn gríðarlega mikilvægir fyrir okkur Íslendinga, enda felast í þeim miklir möguleikar, bæði fyrir einstaklinga en líka fyrirtæki og stofnanir.

Við erum vön því að geta nýtt okkur þau tækifæri sem bjóðast með norrænu samningunum. Fólk tekur því í raun sem sjálfsögðum hlut og ætlast til þess að geta flutt hindrunarlítið innan Norðurlanda til að stunda nám eða vinnu. Íslendingar hafa getað sótt félagslega þjónustu og notið félagslegs öryggis á sama hátt og heimamenn þegar þeir dvelja til lengri eða skemmri tíma í öðru norrænu ríki. Norrænu samningarnir hafa því í gegnum tíðina þjónað tilgangi sínum vel.

Reynslan hefur sýnt að þrátt fyrir víðtæka samninga koma alltaf upp tilvik þar sem einstaklingar ná ekki rétti sínum og lenda af einhverjum orsökum á gráu svæði þar sem þeir eiga hvergi rétt. Mál af því tagi snerta til að mynda almannatryggingar, skatta, tolla, rétt til námslána, húsaleigubóta, fæðingardagpeninga og margt fleira.

Það er alveg ljóst að ekki er unnt að leysa allan vanda, en mörgum sem eiga rétt samkvæmt samningum eða lögum er hægt að leiðbeina og aðstoða. Ég minni á upplýsingaþjónustu norrænu ráðherranefndarinnar, Halló Norðurlönd. Hún var á sínum tíma sett á laggirnar árið 2001 til að leiðbeina þeim sem flytja á milli norrænu landanna í samskiptum sínum við stjórnvöld. Þjónustan veitir almennar upplýsingar um réttindi og skyldur og nauðsynlegan undirbúning til að menn missi ekki lögbundin réttindi sín við flutninginn, en hún veitir líka upplýsingar og leiðbeiningar til þeirra sem hafa lent í erfiðleikum vegna þess að þeir eru búsettir í öðru norrænu landi en heimalandinu. Upplýsingaþjónustan hefur reynst gott verkfæri til að greina hindranir og koma upplýsingum um þær til stjórnvalda í löndunum.

Komið hafa upp hindranir sem rekja má til þess að fólk undirbýr flutning ekki nægilega vel, er ekki nægilega upplýst um réttindi sín eða fær rangar upplýsingar. Starfsfólk opinberra stofnana á Norðurlöndum þekkir til að mynda ekki endilega norrænu samningana og réttaráhrif þeirra. Túlkun á framkvæmd samninganna getur einnig verið mismunandi milli landa og ákveðinnar tregðu hefur líka gætt til að leiðrétta rangar ákvarðanir, enda þótt unnt sé að sýna fram á að svo hafi verið. Þannig getur fólk hæglega lent í miklum ógöngum í samskiptum við opinberar stofnanir sem getur reynst erfitt að rata úr. Á vegum upplýsingaþjónustunnar Halló Norðurlönd hafa verið haldin námskeið fyrir starfsmenn í ýmsum lykilstofnunum á Norðurlöndum til að upplýsa um norrænu samningana og koma í veg fyrir að svona hindranir verði til.

Landamæri Íslands liggja ekki að neinu öðru ríki ef við miðum við þann skilning að landamæri séu lína eða mörk, ímynduð eða áþreifanleg, sem aðgreinir tvö ríki. Staða okkar er því frábrugðin þeirri sem er annars staðar á Norðurlöndum þar sem landamæri liggja saman og fólk á auðveldara með að búa í einu landi og stunda nám eða störf í grannlandinu. Þær hindranir sem upp hafa komið varða einkum samganginn milli Svíþjóðar, Danmerkur, Finnlands og Noregs. Við Íslendingar höfum hingað til verið svo lánsöm að margar þær hindranir sem hafa orðið á vegi okkar hefur verið unnt að leysa með góðum vilja. Skemmst er að minnast nafnamálsins svokallaða þar sem lagabreytingar þurfti til í Svíþjóð og Danmörku til að gera okkur kleift að nota okkar séríslenska nafnakerfi þegar við nefnum börnin okkar þegar þau fæðast þar, þ.e. nýta föðurnöfnin. Þetta mál var til að mynda unnt að leysa.

Hins vegar, og það er ekki síst ástæðan fyrir því að ákveðið var að halda þessa umræðu, ekki aðeins hér á landi heldur líka annars staðar á Norðurlöndum á svipuðum tíma, hafa komið upp nokkur dæmi um landamærahindranir á undanförnum missirum og þau kunna að gefa til kynna aukna tilhneigingu til þess að sniðganga norrænu samningana og virða þá að vettugi.

Ég minni á það dæmi þegar Svíar breyttu gegn betri vitund inntökureglum í sænska háskóla á þá leið að námsmenn með erlend stúdentspróf lentu í sérstökum úrtakshópi sem ekki gat keppt um námsvist í sænskum háskólum á sama grunni og sænskir námsmenn. Norrænir námsmenn lentu í þeim hópi sem stríðir gegn norræna samningnum um jafnan aðgang að æðri menntun. Þessu var að vonum mótmælt harðlega, enda hafði þeim samningi ekki verið sagt upp og stendur reyndar til að endurnýja hann á þessu ári. Þessu var mótmælt, ekki aðeins af Íslendingum heldur líka af öðrum norrænum þjóðum gagnvart Svíum, bæði á vettvangi norrænu menntamálaráðherranna, á vettvangi Norðurlandaráðs og væntanlega í starfsnefnd Norðurlandaráðs sem fer með menntamál.

Svíar ákváðu í kjölfar þessa að breyta reglunum á ný til þess að leiðrétta þetta misræmi. Sú breyting mun gilda frá hausti 2012, en eigi að síður er það alvarlegt umhugsunarefni að þessar breytingar á inntökureglunum hafi náð fram að ganga í trássi við norrænan milliríkjasamning og tekið hafi þennan tíma að fá þeim breytt til baka þrátt fyrir að á þessu hafi í raun strax verið vakin athygli af hálfu hinna norrænu ríkjanna.

Annað dæmi er það að á undanförnum missirum hefur það færst í vöxt að íslenskir námsmenn í Svíþjóð fá ekki aðgang að Försäkringskassan, sem er systurstofnun Tryggingastofnunar ríkisins, en án þess njóta þeir ekki mikilvægra félagslegra bóta eins og til að mynda barnabóta, húsaleigubóta og greiðslna í fæðingarorlofi. Þetta er flókið mál og tengist því að nýjar ESB-reglugerðir tóku gildi árið 2010 milli ESB-ríkjanna og komu í stað eldri almannatryggingareglugerða. Fram að því höfðu ekki verið nein vandkvæði fyrir íslenska námsmenn að fá bætur almannatrygginga í Svíþjóð, enda um það samið í norrænum samningi að þeir sem skráðir eru í þjóðskrá viðkomandi lands og með fasta búsetu þar skuli vera tryggðir á sama hátt og heimamenn. Með innleiðingu nýju reglugerðarinnar voru því tekin upp ný viðmið og breyttu Svíar fyrri framkvæmd gagnvart norrænum borgurum þvert á ákvæði Norðurlandasamningsins um almannatryggingar. Því er haldið fram af hálfu Svía að ESB-reglurnar gangi framar honum.

Það er ekki komin niðurstaða í þetta mál sem er erfitt viðureignar, en mér er kunnugt um að unnið hefur verið að því í velferðarráðuneytinu. Ég vænti þess að hæstv. velferðarráðherra sem mun tala hér á eftir muni upplýsa þingið um stöðu þess. Þetta kom hins vegar til umræðu á Norðurlandaráðsþinginu hinu síðasta þar sem samstarfsráðherra Svía taldi ljóst að þetta mál yrði leyst á þessu missiri og taldi það fyrst og fremst snúast um innleiðingu þessarar reglugerðar á Íslandi og í Noregi. En Íslendingar og Norðmenn hafa haft uppi mótmæli í þessu máli og hef ég einmitt tekið það upp á vettvangi samstarfsráðherra. Velferðarráðherra mun væntanlega skýra það nánar fyrir okkur, enda málið mjög flókið.

Á sínum tíma voru norrænu samningarnir mikið framfaraspor í samskiptum Norðurlanda. Fyrir Ísland skiptu þeir mjög miklu. Þeir greiddu götu einstaklinga og fyrirtækja á Norðurlöndum og þeim fylgdi áður óþekkt frelsi. Á meðan þeir eru enn í gildi og á meðan þeim hefur ekki verið sagt upp er mikilvægt að eftir þeim sé farið og að stjórnmálamenn taki það til jafnalvarlegrar umræðu þegar reynt er að sniðganga þá og þegar aðrir milliríkjasamningar eru virtir að vettugi. Þess vegna er mjög mikilvægt að við ræðum þetta hér. Það kunna að vera fleiri dæmi en þau sem ég hef nefnt. Ég hef í raun og veru bara tæpt á nokkrum dæmum sem snúa að stjórnsýslu- og landamærahindrunum, en þetta eru þau mál sem ég tel, af minni stuttu reynslu af norrænu samstarfi undanfarin þrjú ár, að brenni mest á þingmönnum sem sitja í Norðurlandaráði sem og ráðherrum. Ýmsar slíkar hindranir eru líka uppi í viðskiptalífinu sem er mikilvægt að taka til umræðu. Þetta eru þær fyrirspurnir sem kveður mest að til að mynda þegar við ræðum þessi mál á vettvangi Norðurlandaráðs.

Það er því mikilvægt að við Íslendingar ræðum þessi mál hér líka, út frá þessum breiða sjónarhóli og hvernig þau horfa við okkur út frá ólíkum geirum, þannig að við sem sitjum sem samstarfsráðherrar eða aðrir ráðherrar og fundum með norrænum kollegum okkar getum tekið afstöðu Íslands upp á þeim vettvangi og barist fyrir afnámi sem flestra þessara hindrana.