141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

staða aðalvarðstjóra á Höfn.

534. mál
[15:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að beina fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um stöðu aðalvarðstjóra á lögreglustöðinni á Höfn í Hornafirði. Við þekkjum öll þann niðurskurð sem löggæslan á landinu hefur þurft að sæta á undanförnum árum. Nú hafa jafnframt staðið fyrir dyrum á undanförnum árum miklar skipulagsbreytingar innan lögreglunnar og niðurstaða er hugsanlega í vændum. Ráðherra innanríkismála hefur nokkrum sinnum reynt að leggja fram frumvörp sem ekki hafa fengist afgreidd í gegnum þingið og á meðan bíður fólk sem starfar hjá þessum embættum og veit ekki —

Forseti. Ég heyri varla í sjálfri mér hér. (Utanrrh.: Ég heyri í þér.) Gott að utanríkisráðherra heyrir í mér hátt og skýrt. Fólk sem starfar hjá þessum embættum bíður og veit ekki hvert embættin eru að þróast. Það er ekki nógu gott að menn séu hér í lausu lofti og þess vegna beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. ráðherra:

Hvenær stendur til að auglýsa lausa til umsóknar stöðu aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Höfn í Hornafirði?