143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[14:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir vinsamleg ummæli í minn garð. Ég gæti haldið langa ræðu um gagnsemi þess fyrir mig að hafa stundað nám í tónlistarskóla. Ég raunar legg það nám í mínu lífi fullkomlega að jöfnu við annað nám í grunnskóla, geri engan greinarmun þar á í mikilvægi. Reyndar tel ég allt benda til þess að nám í tónlist byggi mjög vel undir annað nám, það að fást við tónlistarnámið, ná tökum á hljóðfæri, ná tökum á verkefnum og geta flutt þau á tónleikum, svo dæmi sé tekið. Þetta er auðvitað ferli sem nýtist mjög vel við allt annað nám. Þess vegna styður tónlistarskólakerfið okkar mjög vel við skólakerfið okkar almennt.

Um leið er það vettvangur fyrir þá sem hafa afburðagetu á því sviði. Kerfi okkar er það víðfeðmt, ef svo má segja, að nokkurn veginn sama hvar menn búa á landinu er möguleiki fyrir krakkana að komast í gott tónlistarnám sem síðan er grunnurinn að framhaldsnámi í tónlist fyrir þá sem vilja leggja slíkt fyrir sig sem ævistarf. Þá skiptir máli fyrir okkur þegar kemur að framhaldsstiginu að tryggja að þeir nemendur hafi aðgang að tónlistarnámi við hæfi. Það er þess vegna sem ríkið er tilbúið til að bæta við fjármunum ofan á það sem sveitarfélögin gera sem svo sannarlega hafa málið á forræði sínu. Það er aldrei svo að það sé hugsað þannig að fjármunirnir hjá ríkinu komi í staðinn, enda getur það ekki verið svo að eitt stjórnsýsluvald hafi alla stjórnsýslu málsins og forræði en annað stjórnsýslustig sjái síðan um að greiða. Það hlýtur að þurfa að fara saman.

En ég get tekið undir það sem hv. þingmaður ræddi um mikilvægi þessa máls.