143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[14:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er rétt að halda því til haga að samkomulag var gert við Samband íslenskra sveitarfélaga en ekki einstök sveitarfélög. Því er kannski rétt að leita einhverra skýringa hjá samtökum sveitarfélaga hvernig nákvæmlega það kemur til að sveitarfélögin skilja þetta mál ólíkum skilningi.

Ég get staðfest þann skilning sem hæstv. ráðherra fór yfir, og það er líka skilningur fyrrverandi fjármálaráðherra, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem skrifaði einnig undir þetta samkomulag og við ræddum hér í hliðarsal áðan, enda hefði öllum átt að vera ljóst að samkomulaginu fylgdi ekki breyting á lögum um breytta verkaskiptingu. Til þess hefði þurft annars vegar að skrifa þetta út úr samkomulaginu og breyta lögum um verkaskiptingu þannig að það lægi algerlega skýrt fyrir í lögum að framhaldsstigið í tónlist væri þá á ábyrgð ríkisins. Lögum hefur ekki verið breytt og það hefði ég nú talið grundvallarforsendu. Hins vegar kann það að hafa ruglað umræðuna að sú krónutala sem sett var inn í samkomulagið á sínum tíma, 480 milljónir, miðaðist vissulega við einhvern nemendafjölda. Þar með var kannski komin upp einhver hugmynd í hugum fólks að þarna væri ætlunin að greiða fyrir þennan tiltekna nemendafjölda og þar með ætti einhvern veginn að takmarka nemendaaðgang. Auðvitað er mikilvægt að átta sig á því að þar voru upplýsingar ekki nægilega góðar um nemendafjölda, þannig að mér finnst ekkert óeðlilegt að við endurskoðun samkomulagsins verði tekið tillit til betri gagna í þeim efnum. En lagalegur skilningur hlýtur að vera algerlega kristaltær og þangað til lögum verður breytt eins og við ræddum áðan, sem kann að verða, þá hlýtur sá skilningur að vera á samkomulaginu að þetta sé viðbótarfjármagn þar sem ríkið kemur inn. Ég sagði á sínum tíma að mér fyndist þetta vera svolítið mórölsk ákvörðun, þ.e. að ríkið kæmi og styddi við þetta stig og sýndi þar með ákveðinn pólitískan vilja sem ég vona og þykist vita að sé enn til staðar, en ábyrgðin liggur auðvitað enn þá hjá sveitarfélögum.