144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

námslánaskuldir.

[11:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað það snertir að mikið umhugsunarefni er hversu þung greiðslubyrðin er fyrir marga af þeim sem hafa lokið háskólanámi, eru langskólagengnir. Þau hlutföll sem eru til umræðu núna sýna að margir eru greinilega með verulega þunga greiðslubyrði. Við skulum þó hafa það með hér í umræðunni að af því fé sem lánasjóðurinn lánar út til námsmanna þá endurheimtist að raunvirði um það bil helmingurinn. Það kemur til af þeim sérlega hagstæðu kjörum sem námslán eru og þannig má segja að í reynd sé um önnur hver króna sem veitt er í námslán eins konar styrkur. Það gerir mönnum svo sem ekkert léttara fyrir með að standa í skilum þegar skuldafjárhæðin er þetta há og greiðslubyrðin þetta há. En varðandi greiðslubyrðina erum við aftur með reglu sem er ætlað að létta aðeins undir og hún felst í því að það er þó einungis ákveðið hlutfall launa sem kemur til gjalda á hverju ári.

Ég hygg að hér sé tilefni til þess að spyrja hvort einhverjar leiðir séu til staðar til að létta undir ef vandinn er mjög íþyngjandi hjá stórum hópi lántakenda, en einnig eigum við að spyrja okkur að því til framtíðar hvort við stöndum áfram frammi fyrir sambærilegri hættu og hvort gera þurfi einhverjar breytingar. En þegar allt kemur til alls þurfa menn einfaldlega að taka afstöðu til þess hversu miklu til viðbótar við það að reka skólakerfið í raun og veru á Íslandi, að minnsta kosti ríkisskólana án alvöruskólagjalda, hversu miklu til viðbótar við það við erum tilbúin að verja til að létta undir með námsmönnum, ekki bara á námstímanum heldur síðan á síðari hluta ævinnar. Og (Forseti hringir.) eðlilega kemur inn í umræðuna það sem BHM og fleiri halda á lofti um þessar mundir, hvernig eigi að taka tillit (Forseti hringir.) til þess kostnaðar sem námsmenn hafa orðið fyrir í (Forseti hringir.) launakjörum til framtíðar.