145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[12:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Okkar á milli er grundvallarskoðanamunur í þessu máli. Það er voða erfitt að nálgast það út frá því að betra sé að hafa þessa starfsemi undir opinberu eftirliti og hún sé með rekstrarleyfi og allt fari eftir lögum og reglum. Þess vegna sé verið að búa þannig umgjörð um starfsemina að hún verði ásættanleg. Ég er bara ekkert hlynnt því að verið sé að leyfa slíka starfsemi. Ég get ekki samsamað það því að Áfengisverslun ríkisins sé með einkaleyfi á sinni sölu, að þá sé þetta mál þannig vaxið að sambærilega eigi ríkið að opna á það, gera það löglegt og hafa það rekstrarskylt með tilheyrandi leyfum. Ég er bara ekki stödd þar í málflutningi mínum að ég telji að það sé framfaraskref að gera það.

Ég viðurkenni að vandinn er fyrir hendi. Hér þrífst ýmis starfsemi og eins og komið hefur fram í fjölmiðlum nýlega hefur lögreglan verið að uppræta spilavíti. Það er auðvitað mjög slæmt og það er eins og með önnur lögbrot sem framin eru að þá verður auðvitað að halda áfram að vinna gegn þeim og reyna eins og hægt er að koma í veg fyrir ólöglega starfsemi.

Ég tala bara út frá minni samvisku og skoðunum mínum, mér finnst svona starfsemi vera mannskemmandi. Ég verð að segja það alveg eins og er. Talandi um að ekki séu allir spilafíklar, menn eru það kannski ekki í upphafi en þeir verða það.