145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

arðgreiðsluáform tryggingafélaganna.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Það er gott að geta tekið þessa umræðu hér og farið yfir mál sem eru í deiglunni, mál sem eru til umræðu í þjóðfélaginu, að við höfum vettvang á þinginu til að skiptast á skoðunum um þau, í þessu tilviki áætlanir stjórna tryggingafélaganna um arðgreiðslur á komandi aðalfundum. Mig langar til að byrja á að segja að mér finnst þetta mál í heild sinni áminning um að atvinnulífið þurfi að átta sig betur á því að við stöndum öll saman í að endurheimta traust í landinu, traust á milli almennings og atvinnustarfseminnar, traust á milli kjósenda og stjórnmálaflokka, kjósenda og Alþingis, á eftirlitsstofnunum o.s.frv. Okkur miðar ágætlega á mörgum sviðum en atvinnulífið og vinnumarkaðurinn í heild sinni verður líka að skila sínu í þeirri umræðu. Það sem ég er þá sérstaklega að vísa til í þessu sambandi er að menn telji það geta gengið á Íslandi í dag að hækka á sama tíma iðgjöldin fyrir lögboðnar tryggingar og að taka út margra ára uppsafnaðan arð, þ.e. hagnað fyrri ára. Það einfaldlega gengur ekki upp. Það er engin þolinmæði fyrir því hjá íslenskum almenningi, Það hefur sýnt sig í þessu máli. Ég held að ekki eigi að gera lítið úr því að stjórnir tveggja félaga hafi hlustað eftir sjónarmiðum í umræðunni og gert breytingar á áformum sínum hvað þetta snertir.

Að þessu sögðu verð ég samt að segja að mér finnst menn hafa oft og tíðum í umræðu um þessi áform og um stöðu tryggingafélaganna tekið of djúpt í árinni. Það er óskaplega mikilvægt að frá þinginu berist ekki villandi vísbendingar eða upplýsingar um stöðu þessara mála eins og til dæmis þegar menn segja: Það er verið að hola tryggingafélögin að innan, eins og þá standi ekkert eftir nema umbúðirnar eða skelin ein. Það er alls ekki svo. Það er staðfest af Fjármálaeftirlitinu að öll tryggingafélögin höfðu staðist allar gjaldþolsmælingar þrátt fyrir þessi áform um arðgreiðslur. Þetta eru sem sagt stöndug og ágætlega stæð fyrirtæki sem engar vísbendingar eru um annað en að muni standa við allar sínar skuldbindingar, þar á meðal vátryggingaskuldina. Það er algjört grundvallaratriði að hér í þinginu sé ekki talað eins og þessi félög séu komin að fótum fram og að á sama tíma sé verið að greiða háar arðgreiðslur.

Í öðru lagi varðandi þær lagabreytingar sem núna liggja fyrir þinginu er ekki rétt að verið sé að skáka í skjóli þeirra reglna með hugmyndir um arðgreiðslur. Það er hárrétt hjá frummælanda hér að þeim reglum sem við erum að beita okkur fyrir er einmitt ætlað að styrkja til lengri tíma vernd tryggingartakanna og þar með stöðu vátryggingafélaganna. Ég get alveg tekið undir að það er erfitt að fá það til að koma heim og saman að á sama tíma og við herðum reglurnar og skjótum styrkari stoðum undir þessa starfsemi og stöðu þeirra gagnvart tryggingartökum sé einmitt á sama tíma mat stjórna félaganna að það sé svigrúm til að taka út arð. En það segir okkur kannski ekkert annað í sjálfu sér en að þetta eru verulega vel stæð fyrirtæki með mjög sterka eiginfjárstöðu og eignir sem eru langt umfram það sem þarf að sýna fram á lögum samkvæmt að menn hafi til að standa við skuldbindingar. Þetta segir í sjálfu sér ekkert annað en það.

Það geta komið upp álitamál eins og það sem hér er velt upp. Eiga menn að deila því sem umfram er með viðskiptavinunum? Ég tel að löggjafinn eigi ekki að vera að skipta sér af því. Hvar ættum við annars að enda þá umræðu? Hvað með banka sem uppfylla eiginfjárviðmið? Eiga þeir ekki að greiða út arð án þess að lækka fyrst vexti o.s.frv.? Viljum við sem sagt binda það í lög? Hvað með flutningafyrirtæki sem eru með ríflegt eigið fé? Eigum við að banna með lögum að þau greiði út arð áður en þau hafa fyrst lækkað fragtina? Hvað með olíufyrirtæki, eigum við að banna þeim að greiða út arð — þau hafa svo aldeilis verið að greiða út arð ár eftir ár — áður en menn hafa fyrst lækkað álögur á seldan lítra? Eigum við að banna það með lögum? Ég held að Alþingi geti einfaldlega ekki stigið slík skref. Það er allt of langt gengið. Það er of mikil forsjárhyggja, það er mín skoðun. (Gripið fram í.) Það er of mikil forsjárhyggja og of mikil afskipti (Forseti hringir.) af atvinnulífinu að stíga þau skref. Ég fagna því að menn hafa hlustað, það eru komnar fram nýjar tillögur um arðgreiðslur úr þeim félögum sem hér hafa orðið tilefni til umræðunnar og ég held að það sé merki um að menn eru ekki algerlega úr tengslum við veruleikann á Íslandi í dag.

Við höldum síðan áfram hér að bæta umgjörðina, styrkja lagagrundvöllinn og sjá til þess sem okkur er ætlað fyrst og fremst að gera, að vernda tryggingartaka í landinu.