149. löggjafarþing — 86. fundur,  28. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[10:52]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Hv. fjárlaganefndar og annarra nefnda þingsins bíður það mikla verkefni að greina og ræða framlagða fjármálaáætlun. Ég vil þakka fyrir góðar umræður á Alþingi síðustu tvo dagana og fyrir almenna þátttöku þingmanna. Það er mikilvægt að við öll í þessum sal tökum þetta verkefni saman. Fá mál eru mikilvægari.

Framlögð fjármálaáætlun sýnir að ríkissjóður og ríkisfjármálin eru sterk og staðan hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Ríkissjóður er vel í stakk búinn til að takast á við þau verkefni sem bíða, þótt tímabundið bakslag í efnahagslífinu blasi við. Því fylgir mikill vandi að vaxa hratt. Miklum vexti fylgir líka að við missum mögulega af því að gera betur í rekstri og ábyrgri nýtingu fjármuna skattgreiðenda. Við megum aldrei gleyma því að við erum hér að ræða um og sýsla með fjármuni fólksins til verkefna sem við öll ætlumst til að séu skilvirk og haldi vel utan um það velferðarsamfélag sem við viljum byggja.

Á fyrri degi umræðunnar var mikið rætt um forsendur og efnahagshorfur. Rétt eins og fram kom í umræðunni — og við vorum mörg að nálgast í okkar ræðum — skiptir máli að við höfum sameiginlega sýn á horfur og þær aðstæður sem við búum við. Meginmálið er að skynja og meta horfur með ábyrgum hætti, vinna með þær til að minnka sveiflur og gæta að hvernig ríkisfjármálum verði stýrt af ábyrgð. Ríkisfjármálaáætlunin er áætlun — og eðli áætlana er að greina möguleg frávik. Þessi áætlun er þannig úr garði gerð að henni fylgir slík fráviksgreining.

Áhætta fylgir miklum vexti, sérstaklega þegar hann er reistur á veikum grunni. Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson hefur verið óþreytandi á undanförnum tveimur árum að ræða og benda á þá kerfisáhættu sem fylgir örum vexti í flugþjónustu fyrir íslenskt efnahagslíf. Nú horfir því miður ekki vel í þeirri grein, þó að vonandi sé aðeins um tímabundið bakslag að ræða. Það kennir okkur þá lexíu að okkur farnast best og tekst best til þegar skapaðar eru aðstæður fyrir fjölbreytt atvinnulíf og traustar undirstöður. Því verður það núna, rétt eins og alltaf, að fjárlaganefnd rýnir þær forsendur sem þingmálið byggir á og stundar þær rannsóknir sem þarf til að skýra þá mynd betur, því að mörgum finnst hún óljós.

Umræða undanfarinna daga gefur mér ekki tilefni til að segja að hér ríki verulegur ágreiningur um áherslur, umfram það sem auðvitað má skynja af mismunandi stefnum flokka og áherslum einstakra þingmanna. Þeir flokkar sem hér leggja fram þessa fjármálaáætlun lögðu grunn að þessum áherslubreytingum fyrir um ári og áfram er unnið með þær hér.

Fjármálaáætlun 2020–2024 er því framhald áætlunar sem við ræddum og samþykktum fyrir ári þar sem settar voru nýjar áherslur og stefnubreyting gerð. Við þá stefnu er áfram unnið.

Því hefur verið velt upp hér hvaða tæki við höfum til að bregðast við. Ég rakti þau tæki í ræðu minni og endurtek það ekki hér í löngu máli heldur minni á að í áætluninni er lagður til ágætur afgangur, um 30 milljarðar kr., sem er í samræmi við ríkisfjármálastefnu. Hér er sett heldur meira í varasjóði en endilega er ætlast til í lögum um opinber fjármál, auk þess sem þingið hefur það úrræði að ráða með verkum sínum hve nálægt ríkisfjármálastefnunni er gengið.

Fjármálaáætlunin eykur fjárfestingar hins opinbera í samdrætti og þegar samdráttur er í fjárfestingum á einkamarkaði. Hún styður þannig við efnahagslífið með fjárfestingum í innviðum, hvort sem er í samfélagslegum eða efnahagslegum innviðum. Mestu máli skiptir samt sá viðsnúningur sem hefur orðið á skuldastöðu ríkissjóðs á undanförnum árum og með lækkandi fjármagnskostnaði hans.

Ég held að fáa hafi í raun dreymt um það fyrir örfáum misserum að skuldahlutfall ríkisins gæti náð niður í 17–18% af landsframleiðslu við gildistíma fjármálaáætlunar sem við nú ræðum. Þessi staða hefur, sem dæmi, lækkað verulega fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja í landinu. Það er forsenda þess að byggja undir sókn í lífskjörum og aukna samkeppnishæfni fyrirtækja að ríkisfjármálin byggi undir áframhaldandi lækkun vaxta.

Í nýlegu skuldabréfaútboði var ávöxtunarkrafa á verðtryggðan skuldabréfaflokk rétt um 1,2%. Þetta er gífurlega mikilvægt því að það er þessi árangur sem grundvallar lánakjör heimila sem eru að fjármagna kaup á húsnæði, enda hafa raunvextir til fasteignakaupa lækkað verulega undanfarin ár. Það er sú staða sem við gerum best í að verja, til hagsbóta fyrir alla sem þetta samfélag byggja.

En þessi þróun á líka aðra hlið, hún skapar grundvöll að því að hér er nú hægt að halda áfram að lækka álögur á fólk og fyrirtæki. Hún skapar okkur tækifæri til að breyta vaxtakostnaði ríkisins í fjárfestingar — í vegum og viðhaldi þeirra og öðrum þeim innviðum sem við þurfum að bæta. Og að bæta og efla grunnkerfin okkar í félagslegum þáttum, menntamálum og ekki síst í heilbrigðismálum.

Með stækkandi hagkerfi getur allt gjörbreyst á stuttum tíma. Því skiptir miklu máli að halda styrkri fjármálastjórn og halda vel utan um ríkisfjármálin sem grundvallaratriði í því að takast á við komandi tíma. Við leggjum aldrei of mikla áherslu á að draga þetta fram því að það eru gríðarlegir fjármunir sem hefur verið losað um þegar horft er til þessarar áætlunar. Þá má áætla, eins og fram kemur í áætluninni, að fjármagnskostnaður ríkisins á ári við lok áætlunar hafi lækkað um eina 75 milljarða kr.

Herra forseti. Í umræðunni og sérstaklega í umræðum við einstaka ráðherra komu vel fram fjölmörg verkefni sem þarf að rýna og ræða í meðferð þingsins. Ég ætla ekki að telja þau öll saman hér. Við þekkjum þau mörg úr umræðunni um fjárlög sl. haust og mörg vandamál sem við þurfum einmitt að geta greint betur og unnið meira í en tekst til í fjárlagavinnu á hausti.

Ég nefni samt verkefni eins og fjármögnun á rekstri hjúkrunarheimila og ég nefni nýja fjármuni til samgöngumála, hvernig á að nýta þá og hvernig sú nýting verður útfærð í samhengi við aðra mögulega fjármögnun í vegaframkvæmdum og samspil þess við álagningu skatta á umferð — og ekki síst hvernig við notum þá fjármuni í samhengi við nýjar leiðir til að bæta búsetuskilyrði fyrir fólkið í landinu öllu.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, þakka fyrir góðar og málefnalegar umræður.