149. löggjafarþing — 86. fundur,  28. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[11:09]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er í fjórða sinn sem fjármálaáætlun er lögð fram en einungis í fyrsta sinn sem sama ríkisstjórn leggur fram endurskoðaða áætlun. Nú þegar fyrri umr. um fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er að ljúka er full ástæða til að þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum fyrir umræðurnar. Það er líka mikilvægt að halda til haga þeim athugasemdum sem komið hafa fram um vinnulagið og framsetningu áætlunarinnar. Fjárlaganefndarfólk hefur kallað eftir því áður að fram fari ítarleg greining á fjármálasviðum ráðuneytanna, á því hvernig hægt er að vinna markvissar og gera enn betur. Það mun koma að því að það þurfi að setjast yfir það hvernig reynslan af þessum lögum hefur verið, nú þegar það er að komast reynsla á framkvæmd þeirra.

Umræðurnar hafa um margt verið góðar og málefnalegar og fyrirkomulagið með miklum ágætum. Góður tími hefur gefist til skoðanaskipta og mér þykir þetta ganga vel.

En svo ég komi aðeins inn á það sem ég tek frá umræðunni hafa komið fram sjónarmið þess efnis að leita þurfi eftir viðbótarálitum vegna óvissuástandsins í efnahagslífinu. Það má taka undir það, ekki síst í ljósi frétta morgunsins.

Það hefur þó verið alveg ljóst í talsverðan tíma að tekið er að kólna í hagkerfinu. Atvinnuvegafjárfesting dregst saman, annað íslenska flugfélagið er farið á hausinn og loðnan lét ekki sjá sig. Líkt og ég kom inn á í ræðu minni fyrir ári er mikilvægt að það náist að lenda hagkerfinu á mjúkan hátt. Það hefur þó verið undantekning frekar en regla í íslenskri hagsögu.

Samkvæmt hagspám verður hagvöxtur á þessu ári talsvert lægri en spár gerðu ráð fyrir þegar fjármálastefnan var sett. Munurinn er talsverður, en þegar fjármálastefnan var sett var spá um hagvöxtinn á árinu 2019 2,6%. Nú er sú spá upp á 1,7%. Aðrir greiningaraðilar tala um jafnvel minni hagvöxt og greiningardeild Arion banka spáði samdrætti í ár upp á tvö prósentustig færi WOW á hliðina, sem svo raungerðist í morgun.

Það er alveg hægt að taka undir með þeim sem segja að hér ríki óvissa um framhaldið. Ég tek einnig undir orð fjármálaráðherra hérna í fyrradag þar sem hann talaði um að það væri auðvitað ekki skynsamlegt að vera með afkomumarkmið upp á 0,9% á ári þar sem hagkerfið minnkar mikið eða vex jafnvel ekkert.

Það sem ég tel mesta veikleikann til lengri tíma er hins vegar samdrátturinn í atvinnuvegafjárfestingunni. Í atvinnuvegafjárfestingu dagsins í dag verður framleiðsluaukning og framleiðniaukning morgundagsins til. Einmitt vegna þessa samdráttar er svo mikilvægt að ríkið auki fjárfestingu sína, til þess að nýta ónýtta framleiðsluþætti þegar slaknar á spennunni. Það gat aldrei haldið áfram til lengdar að hagkerfið yxi um 4–5% á ári. Það er ekkert ríki í okkar heimshluta, held ég, sem hefur vaxið á sama hraða og hagkerfið á Íslandi hefur vaxið síðustu sjö árin. Í rauninni er fullkomlega eðlilegt að það gefi á bátinn annað slagið í agnarsmáu, opnu hagkerfi eins og á Íslandi. Þannig hefur það svo sem alltaf verið hér og það er ýmist í ökkla eða eyra. Réttast væri því að bera efnahagssveiflurnar saman við einstaka litlar borgir fremur en milljónaþjóðir.

En það er eitt og annað sem leggst með okkur. Það er svigrúm í peningastefnunni. Flest nágrannaríki okkar eru skuldsett upp í rjáfur og vextir við núll. Ef þau í Svörtuloftum meta það svo að það sé svigrúm til að lækka stýrivexti til þess að hleypa súrefni í kerfið er það gerlegt.

Virðulegi forseti. Ég tek þó undir með forseta ASÍ sem talaði um það í Kastljósi gærkvöldsins að það væri óþarfi að spá einhverri harkalegri lendingu. Til þess er einmitt hægt að nota ríkisfjármálin, til að stýra upp í vindinn og nota þau sem tæki í hagstjórninni. Hér er traust staða, þjóðarbúið hefur verið rekið með afgangi í mörg ár, við eigum gildan gjaldeyrisvaraforða eftir veltuárin í ferðaþjónustunni, við eigum meira erlendis en við skuldum og ríkissjóður er kominn undir skuldaviðmið. Við þurfum ekkert að óttast. Það er verkefni að lenda þessu farsællega og það getum við tekist á við.

Herra forseti. Fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er uppbyggingaráætlun. Haldið er áfram á brautinni sem var mörkuð með fjármálaáætlun ársins í fyrra. Við erum að leggja til verulega auknar fjárfestingar til okkar allra mikilvægustu sameiginlegu verkefna; heilbrigðismála, umhverfismála, menntamála, samgangna og nýsköpunar, svo fátt eitt sé nefnt.

Nú standa yfir kjarasamningar milli atvinnurekanda og fulltrúa launafólks. Það að semja milli þessara aðila um hvernig skipta skuli verðmætasköpuninni milli þeirra sem eiga fyrirtækin og þeirra sem selja vinnu sína er mikið verkefni. Fulltrúar launafólks hafa verið staðfastir í sinni afstöðu um að það skuli vera hægt að lifa með reisn af lægstu launum og undir það tek ég.

Ríkisstjórnin hefur, þótt hún sé ekki aðili að þessari samningagerð, fjármagnað umfangsmiklar aðgerðir til að liðka fyrir kjarasamningum. Viðbrögðin við þeim aðgerðum frá leiðtogum verkalýðshreyfingarinnar hafa hljómað jákvæð síðustu daga, enda er það hlutverk stjórnvalda, ásamt aðilum vinnumarkaðarins, að viðhalda félagslegum og efnahagslegum stöðugleika, m.a. með því að aðstoða aðila vinnumarkaðarins við að hækka ráðstöfunartekjur fólks, með því að halda áfram að endurreisa félagslegt húsnæðiskerfi og að lengja loksins fæðingarorlofið, að lækka skattbyrði lægstu launa og koma á réttlátara, þrepaskiptu skattkerfi.

Þetta er árangur í þágu jöfnuðar og velferðar, þetta eru skref í rétta átt og gera líf fólks betra.

Virðulegi forseti. Ég ætla að draga fram hér nokkur helstu áherslumál ríkisstjórnarinnar í þessari fjármálaáætlun. Áhersla ríkisstjórnar og heilbrigðisráðherra er á félagslegan rekstur heilbrigðisþjónustunnar og áfram er veruleg aukning á framlögum til opinberrar heilbrigðisþjónustu. Áfram er unnið að lækkun á greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu og verður 9 milljörðum varið til hennar á áætlunartímabilinu. Geðheilbrigðismálin eru í brennidepli sem fyrr og styrking heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar, enda er það í samræmi við stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum.

Á þessu ári hefur 650 milljónum verið varið til að fjölga sálfræðingum í heilsugæslunni og koma á fót geðheilsuteymum um land allt. Áfram verður haldið á næstu árum og nema aukin framlög til að efla geðheilbrigðisþjónustuna 100 millj. kr. ár hvert til ársins 2024.

Framlög verða aukin enn frekar til sóknar í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Alls eru ætlaðir 27 milljarðar kr. í því skyni á tímabilinu. Þetta þýðir að hægt verður að byggja 133 hjúkrunarrými til viðbótar þeim 790 rýmum sem þegar eru á framkvæmdaáætlun víðs vegar um landið. Og ég verð líka að nefna að gert er ráð fyrir um 1,5 milljörðum til Sjúkrahússins á Akureyri vegna viðbyggingar.

Virðulegi forseti. Aldrei hefur jafn miklum fjármunum verið varið til umhverfismála. Afar mikilvægt er að auðlindanýting verði sjálfbær og að brugðist verði við loftslagsbreytingum af mannavöldum og ber fjármálaáætlunin skýran vott um áherslur ríkisstjórnarinnar til að bregðast við. Gert er ráð fyrir tæpum 7 milljörðum sem ætlaðir eru sérstaklega til margvíslegra aðgerða í loftslagsmálum hér á landi næstu árin. Um algera byltingu er að ræða í umhverfisvernd á Íslandi. Ástæða er þó til að vekja athygli á því að þetta er ekki heildarfjárhæð sem rennur til loftslagsmála því að gert er ráð fyrir tæpum 2 milljörðum til almenningssamgangna og fleira mætti telja til.

Síðan er vert að nefna að á dögunum tilkynntu ráðherrar umhverfis- og ferðamála um úthlutun á rúmum 3,5 milljörðum kr. á næstu þremur árum í innviðauppbyggingu og á sama tíma er áætlað að verja um 1,3 milljörðum kr. sérstaklega til landvörslu.

Áhersla stjórnvalda er að efla menntun í landinu og er hafin mótun menntastefnu til ársins 2030. Framlög til menntamála eru áfram aukin og breytingar fyrirhugaðar á LÍN, til mikilla hagsbóta fyrir námsmenn. Áhersla er lögð á rannsóknir og nýsköpun og vert er að geta þess hér að forsætisráðherra hefur sett af stað starfshóp til að gera úttekt á úthlutunum úr vísinda- og tæknisjóðum. Það verður áhugavert að sjá þær niðurstöður, sérstaklega með tilliti til landsbyggðarinnar.

Í umræðum við menntamálaráðherra hér í gær kom fram að mikilvægt er að fjölga þeim sem útskrifast úr starfs- og tækninámi. Þar tel ég að skipti máli m.a. að horfa til þess að nemendahópar eru oft litlir og þarf að aðlaga forsendur að því.

Virðulegi forseti. Í áætluninni er á sviði menningar og lista lögð sérstök áhersla á barnamenningu og málefni íslenskrar tungu og er gert ráð fyrir 15 milljörðum til þessa sviðs á hverju ári áætlunarinnar. Efla á söfn og faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna sem og er settur á laggirnar nýr stuðningssjóður vegna útgáfu bóka á íslensku og tímabundið framlag er veitt til nýstofnaðs Barnamenningarsjóðs Íslands. Miklar áskoranir felast í því að tryggja að íslenskan verði áfram notuð á öllum sviðum þjóðlífsins og í hinni stafrænu veröld. Þar er máltækniverkefnið lykilatriði og er það fullfjármagnað.

Það er minnst á geymsluvanda þjóðarsafnanna og munu aðgerðir beinast að lausnum eins og fjargeymslum. Þar vil ég brýna menntamálaráðherra til að leita til landsbyggðanna þar sem hægt er að fá eða byggja slíkt húsnæði og um leið búa til störf eða auka við þau sem fyrir eru.

Herra forseti. Við þekkjum öll umræðuna um ástand vegakerfisins. Viðhaldi hefur verið ábótavant og allt of margir vegir illa farnir, að við tölum ekki um aukningu ferðamanna á vegunum. Á árunum 2020–2024 eru áætlaðir 132 milljarðar í fjárfestingarframlög í vegakerfinu.

Hér hef ég farið yfir það í stuttu máli að við munum nýta það svigrúm sem er til staðar til að koma með kröftuga innspýtingu í hagkerfið nú þegar hagvöxtur dregst saman hraðar en spár hafa gert ráð fyrir síðustu mánuði.

Virðulegi forseti. Fjárlaganefnd fær nú málið og kemur til með að kalla til sérfræðinga til þess að leggja mat sitt á þá þætti sem óvissa er um. Margt mun skýrast á næstu vikum. Mér hefur ekki þótt vera sérstakur ágreiningur í umræðunni, fólk er sammála um að það sé óvissa í hagkerfinu en svo er auðvitað misjafnara hvort glasið sé hálftómt eða hálffullt. Sumir telja að boginn sé spenntur of hátt, aðrir vilja bæta í, svona eins og gengur. Hér er mikið nesti inn í nefndarvinnuna úr umræðunni og margt að skoða. Ég treysti því að við gerum þetta vel og að við gerum það saman.