149. löggjafarþing — 86. fundur,  28. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[11:19]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Forsendur þessarar fjármálaáætlunar voru brostnar áður en hún kom úr prenti. Eftir fréttir morgunsins er þetta eiginlega í besta falli ágæt skáldsaga. Þessi fjármálaáætlun eins og hún er lögð fram af ríkisstjórninni held ég að verði henni til ævarandi áminningar um fullkomna vanhæfni í efnahagsstjórn.

Þegar stofnað var til þessa ríkisstjórnarsamstarfs og ríkisstjórnin kynnti sína fyrstu fjármálaáætlun var ítrekað varað við því hversu óvarlegt og í raun ábyrgðarlaust væri af hálfu stjórnvalda að ætla að stýra hér ríkisfjármálum líkt og við gætum siglt inn í eilífðina í 3% hagvexti, það væri ekki í takti við grunngildi laga um opinber fjármál, grunngildi eins og sjálfbærni ríkisfjármálanna til lengri tíma litið, hvað þá einhverja varfærni eða festu.

Það er ágætt að muna til hvers farið var á sínum tíma í þessa vegferð um endurskoðun laga um opinber fjármál. Það var til þess að við stæðum ekki í þeim sporum að á tímum efnahagssamdráttar þyrfti alltaf að grípa til niðurskurðar í ríkisfjármálum eða skattahækkana eða hvors tveggja, að það væri búið að eyða síðustu krónunni í sparibauknum þegar um hægði.

Það kemur ekki á óvart, og átti ekki að koma þessari ríkisstjórn á óvart, að íslenska hagkerfið er sveiflukennt. Það er hagkerfi íslensku krónunnar. Við erum með sveiflukenndasta hagkerfi í hinum vestræna heimi. Að sýna það fyrirhyggjuleysi að hafa ekkert borð fyrir báru til að takast á við það sem í augnablikinu lítur út fyrir að ætla að verða, á íslenskan mælikvarða, en samt sem áður, tiltölulega mjúk lending, þrátt fyrir allt. Það er engin ástæða til að mála skrattann á vegginn. Við höfum hagspár, t.d. hagspá sem birt var í gærmorgun af hálfu Arion banka sem gerir ráð fyrir því að við þessa sviðsmynd, að WOW sé farið á höfuðið, verði samdráttur í landsframleiðslu upp á 2% á þessu ári og kannski liðlega 1% vöxtur á því næsta.

Þetta er enginn heimsendir en þetta hefur gríðarleg áhrif á afkomu ríkissjóðs, svo mælt er í tugum milljarða. Sviðsmynd sú sem ríkisstjórnin dró upp í þessari fjármálaáætlun er þar í raun og veru draumsýn ein, sem þó gerði ráð fyrir því að undir lok fjármálaáætlunarinnar væri afkoma ríkissjóðs 60 milljörðum kr. lakari en hér er gert ráð fyrir.

Það gefur augaleið að eigi ríkisfjármálin að vera sjálfbær til lengri tíma litið þarf annað tveggja að gerast. Það þarf að laga útgjaldastig þessarar fjármálaáætlunar að því sem samræmist sjálfbærni og fyrirsjáanleika í ríkisfjármálunum til lengri tíma litið eða hækka hér skatta myndarlega.

Við, þingmenn Viðreisnar, spurðum ítrekað í umræðu um fjármálaáætlun á undanförnum tveimur dögum: Ef eitthvað á undan að láta í þessari fjármálaáætlun, hvort vilja fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna standa vörð um áform um skattalækkanir eða útgjaldaaukningu? Í langflestum tilfellum var svarið: Það er samstaða um þær skattalækkanir sem eru áformaðar. Við í Viðreisn styðjum þau áform um skattalækkanir. Það er oft talað um að það sé aldrei réttur tími til skattalækkana en þegar um hægist í hagkerfinu er sennilega besti tíminn til skattalækkana, ef þess er einhver kostur.

Ég held að það væri mjög góð tímasetning á skattalækkunum við þær kringumstæður sem við erum að sigla inn í núna, að létta aðeins byrðarnar einmitt af heimilunum, að auðvelda heimilunum að takast á við það efnahagshögg sem við erum að fara í gegnum.

Við skulum líka muna að í krónulandi er höggið alltaf það sama. Við fáum gengisveikingu og verðbólguskot og verðtryggðu lánin okkar hækka. Greiðslubyrðin okkar eykst, kaupmáttur tekna okkar minnkar. Við þær kringumstæður væri ákaflega gott fyrir heimilin að þau fengju þá einhverja skattalækkun til að hjálpa þeim að takast á við það högg. Það styðjum við í Viðreisn eindregið.

Vandinn sem okkur er á höndum þegar við horfum til umfjöllunar og meðhöndlunar fjárlaganefndar á þessari fjármálaáætlun núna er auðvitað hversu útgjaldaglöð þessi ríkisstjórn hefur verið, hversu mikið er búið að auka í ríkisútgjöldin á skömmum tíma, hversu miklu er búið að lofa í viðbótarútgjaldaaukningu og hvernig fjárlaganefnd eigi að axla þá ábyrgð að aðlaga það útgjaldastig að hinum efnahagslega veruleika sem við okkur blasir en standa um leið vörð um þau áform um skattalækkanir sem gefin hafa verið skýr fyrirheit um og eru m.a. hluti af útspili ríkisstjórnarinnar við lausn kjarasamninga, sem vonandi hillir undir samkomulag á vinnumarkaði um.

Ég fæ mig eiginlega ekki til að ræða fjármálaáætlun þessa mikið efnislega. Hún er í raun og veru fullkomlega óraunhæf. Mér hefur fundist dálítið áhugavert að hlusta hér á fulltrúa meiri hlutans ræða hana hér og flytja í raun og veru bara óbreyttar ræður, eins og ekkert hafi í skorist, þegar það er alveg augljóst að við erum að horfast í augu við allt annan veruleika en áður.

Það er auðvitað áhugavert að þrátt fyrir þá gríðarlegu útgjaldaaukningu sem heitið er í fjármálaáætluninni, þrátt fyrir að hér sé verið að auka frumútgjöld ríkissjóðs, að ég hygg um nærri 100 milljarða kr. á föstu verðlagi á gildistíma áætlunarinnar á ári hverju, er samt ekki að sjá að til séu fjármunir, t.d. til að takast á við nýtt örorkulífeyriskerfi. Það er einfaldlega ekki fjármagnað í þessari fjármálaáætlun. Það er fjármagnað, að sögn, með einhverjum bókhaldsbrellum um að hér verði skyndilegur viðsnúningur í þróun á nýgengi örorku — sem er algjörlega óraunhæft, sér í lagi þegar við horfumst í augu við það að atvinnuleysi mun aukast eitthvað við það áfall sem við förum í gegnum.

Og ekki nóg með það heldur er því líka heitið að það verði ráðist í stórsókn í menntakerfinu okkar og að t.d. í háskólanum eigi að ná meðaltali OECD-ríkjanna í framlögum á nemanda. Í fjármálaáætluninni er samt engar upplýsingar að finna um einu sinni nemendafjölda í háskólunum eða hver núverandi staða hvað þetta varðar sé. Í umræðum við hæstv. menntamálaráðherra var ekki að sjá að það væri hægt að draga neinar slíkar upplýsingar fram þar heldur. Það er auðvitað dálítið erfitt að setja sér markmið ef við vitum ekki frá hvaða punkti er lagt af stað.

Við þekkjum það hins vegar að háskólastigið okkar er í augnablikinu að takast á við breytingu menntaskólastigsins og er með tvöfaldan árgang að fara í gegnum háskólastigið á næstu misserum, sem hlýtur að fela í sér allnokkra fjölgun nemenda. Útgjaldaaukningin er nær engin. Þannig að þetta loforð er heldur ekki fjármagnað í fjármálaáætluninni.

Síðan gerir áætlunin ráð fyrir því að launaþróun opinberra starfsmanna og lífeyrisþega verði með allt öðrum hætti en verið er að ræða hér á vinnumarkaðnum og efnahagsforsendur þessarar fjármálaáætlunar, eins brostnar og þær eru nú, gera ráð fyrir allt annarri launaþróun líka, mun hærri en ríkisstjórnin ætlar að hækka bætur almannatrygginga eða laun eigin starfsmanna um.

Þannig að jafnvel þó að efnahagsforsendurnar hafi verið fullkomlega óraunhæfar voru útgjaldaforsendur það líka, þau loforð sem voru veitt voru ekki einu sinni fjármögnuð í þeirri veislu sem boðið var upp á.

Ég held að það verði alveg óhjákvæmilegt verkefni fjárlaganefndar, úr því að ríkisstjórnin neitaði að horfast í augu við hinn efnahagslega veruleika — og ég ætla að segja að ríkisstjórnin féll á efnahagsprófi. Þetta er ekki hagstjórn, hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er ekki að beita ríkisfjármálunum með sveiflujafnandi hætti. Við okkur blasir nákvæmlega sama vandamál og alltaf hefur gert þegar um hægist í hagkerfinu. Við þurfum að takast á við það verkefni að skera niður ríkissjóð — sem er hábölvað verkefni, afsakið, herra forseti, enn eina ferðina. Við höfum í alvörunni ekkert lært.

En það verður óhjákvæmilega verkefni fjárlaganefndar í efnislegri meðhöndlun á þessari fjármálaáætlun að hana þarf að skera upp frá grunni. Þar munum við í Viðreisn beita okkur fyrir því að staðinn verði vörður um áform um skattalækkanir til heimilanna — en plaggið sem slíkt verður ágætisminnisvarði um algjörlega gjaldþrota ríkisfjármálastefnu þessarar ríkisstjórnar.