149. löggjafarþing — 86. fundur,  28. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[11:39]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Þá erum við hér á lokasprettinum við að ræða fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, fjármálaáætlun sem við vissum að allar forsendur voru brostnar fyrir áður en hún kom úr prentun, þó að væri ekki nema bara fyrir óvissuþátt eins og loðnubrestinn sem Hagstofan hafði ekki tekið með í reikninginn í hagspá sinni. Hún ætlar ekki að gefa það út fyrr en í maí. Það er að vísu erfitt að skilja það vegna þess að það var vitað að sá loðnubrestur var þegar til staðar.

Við fengum slæmar fréttir í morgun. Það hlýtur að vera áfall fyrir okkur að þurfa að horfast í augu við það að hér munu sennilega 1.000–1.200 manns missa vinnuna vegna þess að WOW er ekki lengur starfandi á markaði.

Við höfum fengið að heyra hér í öllum ráðherrunum okkar, haft tækifæri síðustu tvo dagana til að eiga andsvör við þá til þess að fá að taka þátt í málaflokkunum þeirra. Við höfum séð metnað ríkisstjórnarinnar sem að mörgu leyti skín í gegn. Það er ekki hægt að vera bara hér með neikvæðni gagnvart, í rauninni, bjartsýni sem ríkir hjá ríkisstjórninni, bjartsýni hvað varðar ríkisbúskapinn. Við höfum mjög sterka fjárhagslega stöðu þjóðarbúsins í dag, sterkari en oftast áður. Við höfum greitt niður skuldir og um leið höfum við aflað okkur aukinna tekna til neyslunnar vegna þess að við höfum lækkað svo mikið vaxtakostnað.

En hvað skyldi það vera í þessari fjármálaáætlun til fimm ára sem hreinlega sló mig nánast niður? Jú, enn þá er það ljóst og engum vafa undirorpið að þeir sem bera minnst úr býtum, þeir sem er haldið hér í sárri fátækt, eru enn þá skattlagðir. Það er enn þá sýnt að það virðist vera að ef fátækasta fólkið í landinu er ekki skattlagt muni bara þjóðarskútan fara á hliðina. Er ekki dapurlegt, virðulegi forseti, að þurfa að horfast í augu við það að við þurfum að skattleggja fátækt? Eða réttara sagt að fjármunum okkar skuli vera forgangsraðað þannig að við lækkum frekar bankaskatta, álögur á útgerðina og þá sem geta vel komist af og sýnum svo í verki að við ætlum að taka það af þeim sem hafa ekki efni á því?

Við sýnum ítrekað að það er alltaf hægt að beygja bognu bökin meira.

Stundum hugsa ég með mér, virðulegi forseti: Hvað er það sem veldur? Er það veruleikafirring þeirra sem stýra landinu? Er það vegna þess að þeir hafa aldrei nokkurn tímann staðið í þeim sporum sem fátækasta fólkið á Íslandi gerir? Við vitum að yfir 40.000 Íslendingar eru með undir 300.000 kr. útborgað á mánuði. Hvernig í veröldinni er hægt að ímynda sér að nokkur geti lifað á og framfleytt sér með sóma á slíkri horrenglu? Auðvitað ímyndar sér það ekki nokkur maður, en hins vegar virðast stjórnvöld heldur ekki geta ímyndað sér hversu erfitt það er, hversu kvíðvænlegt og hversu ömurlegt það er, að vakna daginn eftir, horfa á börnin sín og geta ekki veitt þeim það sem almennt er talið eðlilegt í samfélaginu, eiga kannski snilling á einhverju sviði, framtíðartónlistarsnilling, framtíðaríþróttameistara, en geta ekki fjármagnað það fyrir barnið sitt að koma því til tómstunda eða koma því í samneyti við það sem almennt er viðurkennt að börn eigi að geta tekið þátt í.

Við erum með barnasáttmála, við erum með mannréttindasáttmála og lágmarksframfærsluviðmið. Hvað gerum við við þetta allt saman? Á þessu háa Alþingi er allt þetta tekið sem snertir fátækasta fólki í landinu og það er fótumtroðið. Það sýnir sig berlega í þessari fimm ára fjármálaáætlun sem í raun og veru tekur hvergi á því að leiðrétta eitt eða neitt sem lýtur að þessu fátækasta fólki.

Það kom út skýrsla sem var kynnt 28. febrúar sl. sem Velferðarvaktin lét vinna. Kolbeinn Stefánsson félagsfræðingur kynnti hana. Þar kemur fram að almennt sé talið að staða íslenskra barna sé efnahagslega góð í samanburði við alþjóðasamfélagið. Frábært! Hvað þá með þessi 10–15% sem skýrslan segir að búi hér við fátækt? Hvað með þau?

Ýmsar leiðir eru færar og það er verið að kalla eftir því hvernig við getum — og hæstv. fjármálaráðherra spurði mig: Hv. þingmaður, hvað getur þú séð? Getum við gert eitthvað? Hvernig eigum við að fara að því? Hvað mun pakkinn kosta? Auðvitað byrjum við á því að forgangsraða fjármunum þangað sem þeirra er mest þörf. Eðli málsins samkvæmt hlýtur það að vera það eðlilegasta, sanngjarnasta og réttlátasta í stöðunni.

Króna á móti krónu skerðing er eitt af því sem virðist eiga að afnema í áföngum. Ég veit ekki á hve mörgum áratugum vegna þess að það tók ekki nema eina mínútu að koma henni á. Það tók líka eina mínútu að taka hana af eldri borgurum þann 1. janúar 2017 en einhverra hluta vegna virðast öryrkjar alltaf vera hópur úti í samfélaginu sem greinilega á að refsa af því að þeir eru ekki nógu meðfærilegir.

Hvers vegna var krónu á móti krónu skerðingu t.d. ekki bara létt af þeim á sama tíma og eldri borgurum? Hvers vegna ekki? Jú, þeir voru ekki tilbúnir til að undirgangast eitthvað sem þeir vissu ekki hvað var, sem þeir treystu ekki — vegna þess að auðvitað vantreysta öryrkjar því sem fer fram á hinu háa Alþingi þegar verið að skáka þeim í þá ramma sem þeir hafa þurft að búa við og hokra í síðustu árin.

Ég segi, virðulegi forseti, að það er í rauninni sama. Ég hef komið hingað með lausnir. Það er verið að tala um örorkubyrði. Það er verið að tala um nýgengi örorku. Öryrkjum fjölgar allt of hratt. Kostnaðarauki ríkissjóðs verður yfirþyrmandi við þessa fjölgun. Það er að tala um að á næstu árum eigi sjálfsagt eftir að þurfa að eyða í okkur öryrkjana um 80 milljörðum á ári úr ríkissjóði.

Hvers vegna þá ekki að gera eitthvað í málinu annað en að hræða úr öryrkjum líftóruna? Hreinlega koma í veg fyrir að þeir treysti sér til að samþykkja það sem þó er verið að leggja mikla vinnu í og reyna að koma til móts við þá með? Af hverju ekki bara að setja það í hendurnar á þessum þjóðfélagshópi og segja: Gjörið svo vel, þið sem treystið ykkur til, farið út að vinna, takið þátt í samfélaginu, borgið með okkur skattana. Við gefum ykkur aðlögunartíma til að sýna hvað í ykkur býr. Þið öryrkjar eruð bærastir til að dæma og meta hversu verðugir þið eruð á vinnumarkaði og til hvers þið treystið ykkur.

Af hverju ekki að búa til alvöruöryggisnet sem ýtir þeim áfram og hvetur þá til dáða? Í öryrkjum býr mikill og vannýttur mannauður og það er okkar hér á hinu háa Alþingi að stíga út fyrir rammann, koma til móts við þá og draga fram allt það besta sem við getum, því að samkvæmt þeirri skýrslu sem ég áður nefndi, sem Kolbeinn Stefánsson félagsfræðingur kynnti okkur 28. febrúar sl., kemur í ljós að sá þjóðfélagshópur sem hefur það langverst í samfélaginu er öryrkjar og einstæðir foreldrar.

Börn þessara þjóðfélagshópa eru þau sem telja 10–15% barna sem búa hér við fátækt.

Hvað getum við gert? Hér er talað um að hækka barnabætur. Bjargar það einhverjum frá fátæktinni? Það er talað um að lækka skatta á lægstu launin. Nei, „koma til móts við lægstu launin“. En það er líka komið til móts við þau hæstu, upp á krónu, nákvæmlega jafn mikið. Það skiptir engu hvort viðkomandi er með 10 milljónir á mánuði eða 200-þúsundkall, hann fær nákvæmlega sömu skattalækkun. Er þetta réttlæti? Er þetta eðlileg forgangsröðun fjármuna? Ég segi nei.

Við höfum líka talað um eldri borgara. Í skýrslunni sem ég er að vísa til kemur fram að staða eldri borgara á Íslandi er almennt mjög sterk. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að inni í því mengi er ákveðinn hópur sem á verulega erfitt, er einangraður, kvíðinn, jafnvel illa nærður.

Það er okkar, virðulegi forseti, okkar alþingismanna og ríkisstjórnarinnar að taka saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum, og viðurkenna fyrir hverja við erum að vinna. Við erum að vinna fyrir alla Íslendinga. Við erum að vinna fyrir fólkið sem fer í kjörklefann í góðri trú um að það sé að kjósa sér valdhafa sem muni standa í lappirnar fyrir alla þjóðina en ekki bara fáa útvalda.