150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

þingfundir og umræður.

[10:33]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við upplifum nú fordæmalausa tíma og á slíkum stundum skipta viðbrögð og tímasetning þeirra öllu máli. Viðbrögð markast af hugmyndum sem æskilegt er að komi úr sem flestum áttum, ekki síst frá stjórnmálamönnum, hvernig bregðast skuli við einstaka vandamálum og ástandinu yfir höfuð. Þeim mun meiri líkur eru á að viðbrögð séu rétt og gagnist sem best og sem flestum. Nú um stundir er samfélagið og reyndar heimsbyggðin öll meira og minna í frjálsu falli efnahagslega séð og staðan tekur breytingum daglega, ef ekki á skemmri tíma. Enginn veit í raun hvernig útlitið verður eftir mánuð svo ég nefni ekki lengri tíma.

Því nefni ég nú, herra forseti, að þó að ég hafi fullan skilning á að störfum þingsins sé haldið í algjöru lágmarki tel ég mikilvægt að heimila hér meiri umræður, t.d. sérstakar umræður og umræður um störf þingsins. Þar er ekki um langan tíma að ræða og kallar ekki á mikla nálægð eða smithættu. Umræður eru kannski aldrei eins mikilvægar og nú, herra forseti. Til að mynda eru fjölmörg mál sem vert væri að ræða, t.d. er þörf á að ræða þær stéttir sem standa í eldlínunni og margar hverjar eru með lausa samninga við ríkið. Ég nefni lögreglumenn og hjúkrunarfræðinga.