150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

kostnaður við kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga.

[10:36]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Þegar hæstv. fjármálaráðherra var forsætisráðherra í stutta stund kom hann færandi hendi á HeForShe-viðburð í New York með bleika köku sem hann skreytti sjálfur. Á viðburðinum sagðist ráðherra vonast til þess að síðar meir yrði hans minnst fyrir að hafa lagt sitt af mörkum til að auka jafnrétti kynjanna. Stuttu síðar sprengdi uppreist æra ríkisstjórn hæstv. ráðherra og hann varð fjármálaráðherra á ný. Eftir stendur að hæstv. ráðherra heldur því a.m.k. fram á tyllidögum að hann styðji jafnrétti kynjanna, að hann sé fyrir hana. Hæstv. ráðherra hefur haft hvert tækifærið á fætur öðru til að sýna það í verki að hann meti störf kvenna raunverulega til jafns við karla. Hann hefur haft mörg ár til þess sem karl í valdastöðum en þrátt fyrir þau fögru fyrirheit, þrátt fyrir fagurgala um jöfn laun fyrir sambærilega vinnu og þrátt fyrir bleiku kökuskreytinguna er það á vakt hæstv. ráðherra sem ekki nást kjarasamningar við hjúkrunarfræðinga. Það er á vakt hæstv. ráðherra sem ljósmæður þurfa að sæta gerðardómi og það var líka á hans vakt sem fjármálaráðherra sem hjúkrunarfræðingar máttu þola gerðardóm í stað samninga fyrir fimm árum síðan.

Nú þegar kjarasamningar þessarar framlínusveitar eru enn og aftur lausir og hafa verið lausir í heilt ár svarar hæstv. ráðherra fyrirspurn hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar um daginn á þá leið að hann viti ekki hvað það kosti ríkissjóð að semja við hjúkrunarfræðinga. Hæstv. ráðherra sem fer með samningsumboð ríkisins í kjaramálum var sem sagt ekki einu sinni meðvitaður um hvað það kostar að ganga að kröfum þessarar grundvallarkvennastéttar í landinu. Það er auðvitað með ólíkindum.

Herra forseti. Ég er hingað komin í þeirri von að hæstv. ráðherra hafi fundist það nógu vandræðalegt síðast að vita ekki svarið við þessari mikilvægu spurningu og geti svarað henni nú. Hvað kostar það að ganga að launakröfum hjúkrunarfræðinga?