150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

kostnaður við kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta vera að svara þessum ósmekklega útúrdúr um HeForShe-átakið sem ég og við í ríkisstjórninni höfum af fullum hug tekið þátt í. Það hófst reyndar í ríkisstjórnartíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þar höfum við hreinlega lagt verulega mikið af mörkum með fjöldamörgum viðburðum og höfum fengið mikið hrós fyrir þannig að ég átta mig ekki á því hvaða erindi upprifjun á því átaki á inn í umræðuna í dag. Mér finnst þetta ósmekklegt.

Varðandi kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga hefur ríkið verið í viðræðum við hjúkrunarfræðinga frá því áður en samningarnir urðu lausir. Samningslotan sem núna stendur yfir hefur skilað verulega miklu, sömuleiðis sérstakt átak sem hefur verið í gangi á undanförnum árum á Landspítalanum. Þar hefur t.d. verið unnið í þremur mismunandi átökum á stofnuninni til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og gera starfið meira aðlaðandi. Það er að skila sér núna í því að í miðlægum nýjum kjarasamningum er að verða grundvallarbreyting á vaktafyrirkomulagi, ekki bara hjúkrunarfræðinga heldur annarra stétta. Í raun er komið samkomulag um þessa breytingu sem var megináhersluatriði hjúkrunarfræðinga í þessari kjaralotu á þeim tíma sem við erum hér að tala saman. Um þetta er komið samkomulag sem mun leiða til þess að vaktavinnufólk mun þurfa að vinna færri vinnustundir í hverri viku og vaktafyrirkomulagið verður tekið til endurskoðunar.

Við höfum verið með ólík tímabundin átök á Landspítalanum sem Landspítalinn sem stofnun hefur borið ábyrgð á að framkvæma. Það sem er í umræðunni núna er átak sem við getum kallað sérstakt vaktaálag sem er að renna sitt skeið. Það hefur þær óheppilegu afleiðingar í tíma að það kemur út eins og launalækkun en allan tímann var ljóst að um var tímabundið átak var að ræða. Verkefnið núna er að búa þannig um kjarasamningagerðina að allir hjúkrunarfræðingar geti notið góðs (Forseti hringir.) af niðurstöðunni og fengið þegar upp er staðið betri kjör.