150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu.

[10:57]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við stjórnmálamenn höfum orðið sammála um að sýna samstöðu í viðbrögðum við ástandinu sem nú er uppi. Það sást gjörla við atkvæðagreiðsluna hér á mánudaginn þar sem stjórnarandstaðan studdi allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar og lagði fram ýmsar hugmyndir um frekari aðgerðir, þótt ekki hafi þær hlotið brautargengi meðal stjórnarflokkanna. Þær voru allar felldar eins og þær væru heilt yfir ómögulegar. Það er mikilvægt, herra forseti, á tímum sem þessum að menn skoði og ígrundi hugmyndir úr öllum áttum. Jafnframt er ljóst í svona ástandi að erfitt er að elta uppi alla smáelda sem víða loga um samfélagið. Allra síst þurfum við á innspýtingu í opinbera kerfið að halda nema hvað varðar bein viðbrögð við faraldrinum auk þess sem fjármunir þar nýtast verr, kerfið er svifaseint og flækjustig oftast mikið. Slíkt kemur í bakið á okkur síðar, það sýnir sig æ ofan í æ að erfitt er að snúa til baka með það ef gefið er í á þeim vettvangi. En margar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru einmitt til þess fallnar að gefa í hjá hinu opinbera. Það eru settar fjárveitingar hingað og þangað inn í kerfið og það má hafa af því áhyggjur að það bólgni út, sérfræðingar í stofnunum hirði innspýtinguna og báknið þenjist út.

Ég ætla að beina spurningum mínum til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um þetta efni. Ég spyr hvort hæstv. fjármálaráðherra deili þessum skoðunum mínum, hvort ekki sé farsælla að beita almennum aðgerðum sem nýtast atvinnulífinu fremur en opinbera geiranum. Þá spyr ég sérstaklega: Telur ráðherra að það komi til greina að lækka tryggingagjaldið verulega? Það hefði víðtæk jákvæð áhrif á atvinnulífið í heild sinni, myndi hjálpa öllum fyrirtækjum, gæti komið í veg fyrir uppsagnir og veitt súrefni til fyrirtækjanna sem langflest standa frammi fyrir samdrætti á næstu mánuðum. Kemur til greina að lækka tryggingagjaldið svo einhverju nemi þó ekki væri nema tímabundið næstu mánuði?