150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu.

[11:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið. Ég er að tala um aðgerðir sem nýtast öllum fyrst og fremst. Þó að það sé lítil lækkun á tryggingagjaldinu tekur tryggingagjaldið mjög þungt í hjá flestum fyrirtækjum og þau kvarta mikið yfir því hversu hátt það er. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála mér í því að nú sé tími til að lækka skatta á fyrirtæki sem nýtast þá öllum í því fordæmalausa ástandi sem við tökumst á við.

Nú hafa ráðstafanir vegna veirufaraldursins, sem herjar á heimsbyggðina, hér á landi verið aðallega í formi frestunar á gjalddögum og ríkisábyrgðar á lánveitingum til fyrirtækja sem verða fyrir mikilli tekjuskerðingu vegna faraldursins. Það hefur ekki tekist vel upp með virðisaukann, þar er algjörlega óljóst hvort verið sé að fresta eða ekki vegna þess að menn vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga í þeim efnum. Staðreyndin er sú að nánast allur rekstur verður fyrir skakkaföllum og raunhæfustu aðgerðirnar eru einmitt almennar skattalækkanir og frestun á einstaka gjalddögum kemur í bakið á þessum fyrirtækjum síðar. Ég er að spyrja um raunhæfar skattalækkanir, ekki bara frestanir. Það að fresta gistináttagjaldinu hefur engin áhrif vegna þess að gistiheimilin eru öll tóm.