151. löggjafarþing — 86. fundur,  27. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Viðkvæmustu mál sem rata á borð lögreglunnar eru vafalaust kynferðisbrot. Þar eru þolendur sérstaklega berskjaldaðir og gerendur oft nákomnir. Það er því gríðarlega mikilvægt að taka vel utan um þessi brot og öll umgjörð og meðferð þeirra sé vönduð og fagmannleg og mæti fólki af virðingu. Nú stendur kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í ströngu við að stórefla þjónustu við þolendur í kynferðisbrotamálum. Vinnan er m.a. byggð á rannsókn á þjónustu við þolendur sem framkvæmd var af lögreglufræðideild Háskólans á Akureyri. Sem betur fer hefur þróunin verið sú að þolendur kynferðisbrota leita í auknum mæli til lögreglunnar, en of lengi var það svo að þolendur mættu þar skilningsleysi eða treystu ekki lögreglunni, dómstólum eða öðrum kerfum okkar til að fara með þessi mál.

Undanfarin ár hafa verið stigin stór skref í þessum málum. Með tilkomu Bjarkarhlíðar og systurstofnunarinnar Bjarmahlíðar á Akureyri hefur verið tekið heildstætt utan um málefni þolenda. Á síðasta þingi samþykktum við svo aðgerðaáætlun gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni í fyrsta sinn. Eitt af því sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gert er einfalt en mikilvægt og það er sú breyting að yfirheyrsluherbergi sem þolendur kynferðisbrota mæta í til viðtals er frábrugðið öðrum. Það er heimilislegra og það er hlýlegra. Við lítum kynferðisbrot öðrum augum en önnur ofbeldisbrot, hvort sem þau snerta börn eða fullorðna, enda er kynferðisleg friðhelgi eitt það allra heilagasta sem hver manneskja á. Afleiðingar slíks ofbeldis lýsa sér m.a. í sjálfsásökunum, efa um eigin upplifun og í mörgum tilvikum treysta þolendur sér því miður ekki enn til að stíga fram og leita aðstoðar.

Það er verkefni okkar sem samfélags að stuðla að því að fólk treysti sér til að leita réttar síns þegar það verður fyrir ofbeldi. Það er verkefni lögreglunnar, dómstólanna, heilbrigðisstarfsmanna og okkar sem eigum sæti hér í þessum sal. Ég fagna því þessari rannsókn og viðleitni lögreglunnar til að bæta þjónustu við þolendur þessara glæpa. Það er mikilvægt og það er nauðsynlegt.