Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

staða ríkisfjármála.

[10:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Eins og lá fyrir strax í upphafi var þessi ríkisstjórn stofnuð fyrst og fremst um stólakaup og að eyða peningum sem höfðu orðið til á árum áður, eins og hæstv. fjármálaráðherra vék að hluta til að hérna áðan. Á einhverjum tímapunkti virðist þetta hafa breyst í einhvers konar fíkn því að á Covid-tímanum var ráðist í mjög verulega útgjaldaaukningu og það afsakað með því ástandi sem þá var, og menn skildu það, en það fylgdi sögunni að strax og því væri lokið yrði farið í aðhald, sparnað, til að greiða niður skuldir. Það gerist ekki. Það varð til nýtt gólf í ríkisútgjöldum og svo er bætt ofan á það alveg stöðugt. Nú síðast sló ríkisstjórnin öll met í útgjöldum ríkissjóðs. En nú er eitthvað að kvikna á perunni, virðist vera, hjá hæstv. ráðherrum. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt í viðtali að nú sé kallað eftir því að ríkið láti minna fyrir sér fara í hagkerfinu. Hæstv. forsætisráðherra hefur líka tjáð sig töluvert um þessi mál og segir að horft verði til aukinnar tekjuöflunar í fjármálaáætlun. Það er varla hægt að skilja það öðruvísi en sem áform um skattahækkanir. Formaður fjárlaganefndar tjáði sig um það mjög afdráttarlaust hér í þingsal í fyrradag að það ætti að hækka hina ýmsu skatta. Tekur hæstv. fjármálaráðherra undir þetta? Verða viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessu ástandi að hækka enn skatta? Verum minnug þess að skattar hér á Íslandi eru með því sem hæst gerist. Telur hæstv. ráðherra að það komi heimilunum til góða að skattar hækki við þessar aðstæður þegar allt verðlag er að hækka og verðbólgan er sú sem hún er?