Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

staða ríkisfjármála.

[10:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við munum ekki fara í skattkerfisbreytingar sem munu bitna á launafólki við þessar aðstæður. Við höfum hins vegar löngu boðað að við munum draga úr ívilnunum, t.d. í skattkerfum fyrir vegi og samgöngur, þ.e. veganotkun sem í dag er skattur sem er inn í bensín- og dísilgjaldinu. Sömuleiðis erum við með vörugjöld og við erum með virðisaukaskatt fyrir innflutning á bílum. Þessa skatta höfum við fyrir löngu síðan boðað að við ætlum að taka til endurskoðunar og þeir munu taka breytingum. Þannig mun það breytast að þeir sem í dag keyra frítt um göturnar á rafmagnsbílum munu þurfa að fara að taka þátt til þess að fjármagna vegakerfið og það verða töluvert miklar breytingar í tengslum við þetta og mér finnst það sanngjarnt. Mér finnst það bara sanngjarnt.

Við höfum verið með miklar ívilnanir sem við munum draga til baka og ég tel að það sé vel hægt að gera breytinguna í skrefum þannig að við höldum áfram háu hlutfalli af innflutningi nýrra vistvænna bíla en þeir byrji á sama tíma að taka þátt í því að standa undir nýframkvæmdum og viðhaldi o.s.frv. Að öðru leyti munum við skoða tekjustofnana og við munum spyrja spurninga um hvort það sé mögulegt að sækja frekari tekjur. Við munum gera það. Við munum velta því upp hvort það geti hjálpað okkur við að draga úr lántökum og það skiptir bara máli, ekki síst þegar ríkissjóður er að taka lán á hærri vöxtum en átt hefur við undanfarin ár af því að þá vexti þarf að bera og greiða til baka ár eftir ár. Þess vegna hef ég verið harður á því að eitt meginviðfangsefni ríkisfjármálanna um þessar mundir er að hætta skuldasöfnuninni. Þau ánægjulegu tímamót urðu í þessu í fyrra að við sáum skuldahlutföllin hætta að versna og þau stöðvast við rétt rúmlega 30%, sem er miklu betri staða en við óttuðumst fyrir einungis tveimur árum síðan.