Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

vextir og verðbólga.

[11:08]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að endurtaka mig: Lægstu vextir í sögunni. Hér er runnið upp sérstakt lágvaxtaskeið, góðir landsmenn, hagið fjárfestingum ykkar í samræmi við það. Aðrir flokkar munu setja verðbólguna af stað, ekki Sjálfstæðisflokkurinn. Aðrir flokkar munu stuðla að hækkun vaxta, ekki Sjálfstæðisflokkurinn. Og hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn þegar hann er spurður um þetta? Hann fer að tala um eitthvað annað. Hann fer að tala um aðra flokka. (Gripið fram í.) Hann fer ekki að tala um kosningaloforðin sín, hann talar ekki um kosningaloforðin sín. Lægstu vextir í sögunni. Það er eitt og hálft ár síðan þetta var sagt.

Hvað vill formaður Sjálfstæðisflokksins segja við það fólk sem hagaði fjárfestingum sínum, í sinni dýrustu fjárfestingu, húsnæði, í samræmi við það að vextir yrðu lágir til lengri tíma og að verðbólgan yrði lág ef það kysi bara Sjálfstæðisflokkinn? Ekki tala um Viðreisn, talaðu um Sjálfstæðisflokkinn. Hvað sagði Sjálfstæðisflokkurinn fyrir einu og hálfu ári? Hver er staðan núna? Hver er staðan á Íslandi? Hver er staða þess fólks sem horfir núna fram á það (Forseti hringir.) að 80.000 kr. í aukningu á afborgun á mánuði er veruleikinn, eða jafnvel 160.000 kr. á mánuði? (Forseti hringir.) Þetta eru 1–2 millj. kr. á ári. Þetta er það sem heimilin fá að heyra þegar hæstv. fjármálaráðherra er spurður um ábyrgð sína á ástandinu á Íslandi. (Forseti hringir.) Vill hann ekki að ástandið á Íslandi sé betra? Er bara gott að það sé hægt að miða við eitthvað annað sem þó er uppfullt af rangfærslum líka?