Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[11:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hér erum við einmitt að greiða atkvæði um það atriði sem hv. þm. Viðar Eggertsson nefndi hér áðan. Í lögum um almannatryggingar eru send þau skilaboð að börn lífeyristaka beri ábyrgð á framfærslu þeirra, þannig að ef börn frá fá fjármagnstekjur, eiga peninga inni á bók, kannski fermingarpeninga, hver veit, þá verður það til þess að skerða greiðslur til foreldra þeirra taki þeir lífeyri. Það hlýtur hver maður að sjá að slík skilaboð með lagasetningu eru algerlega óásættanleg. Því hljóta hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar að greiða atkvæði með breytingartillögu minni hlutans sem gengur út á það að senda þau skilaboð að börn þeirra sem þurfa að treysta á lífeyrisgreiðslur beri ekki ábyrgð á framfærslu foreldra sinna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)