Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

aukið aðgengi að hjálpartækjum fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

823. mál
[12:07]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Hún verður afskaplega stutt. Ég ætla bara að koma hér til að segja hversu ofboðslega þakklát ég er fyrir nákvæmlega þessa þingsályktunartillögu þar sem þingheimur allur tók utan um hana og velferðarnefnd í heild sinni leggur málið fram. Eðli málsins samkvæmt er málið mér einstaklega hjartfólgið. Það er akkúrat vegna aðstoðar og hjálpar Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar sem ég stend hér. Þessi þingsályktunartillaga mun greiða götu ótrúlega margra blindra og sjónskertra einstaklinga, bæði til starfa og náms. Upphæðirnar eru ekki stórar en þær skipta alveg ofboðslega miklu máli. Þannig að ég segi bara: Þetta er það mál sem Flokkur fólksins kom með núna fyrir jólin þegar við vorum í þessu svokallaða samningaferli okkar fyrir þinglok og það var utan um það tekið af heilum hug af öllum flokkum. Þannig að ég segi bara: Takk fyrir ykkur. Þið eruð á réttri leið, ágæta ríkisstjórn. Haldi bara áfram akkúrat á þessari braut og þá erum við öll glöð.