Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

fjöleignarhús.

80. mál
[18:03]
Horfa

Viðar Eggertsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð svör. Þetta er pínulítið vandræðalegt mál. Ég var eiginlega fyrst og fremst að hugsa um hver leggi matið á að þessi hegðun hafi átt sér stað. Það væri kannski ágætt að setja með að það væri fenginn einhver utanaðkomandi aðili sem er ekki annar hvor deiluaðili, það sé fenginn einhvers konar dýralæknir eða dýraatferlisfræðingur sem gæti komið að svona deilumáli og í raun og veru úrskurðað: Hér er mælirinn fullur. Nú er ástæða til að grípa í taumana. Það getur verið óþægilegt fyrir deiluaðilana að lenda saman og þá er komið að þessum matshluta. En það er oft kannski betra að fá mat frá einhverjum til þess bærum manni sem kemur þá bara að og hjálpar upp á málin og segir: Þetta er mitt kalda mat, nú hef ég ekki neinna hagsmuna að gæta en svona er staðan.