131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[12:29]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þarf ekki miklu efnislega að bæta við prýðilega framsöguræðu 1. flutningsmanns, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, fyrir þessu frumvarpi okkar formanna stjórnarandstöðuflokkanna og formanna þingflokka sömu flokka. Það eru aðeins nokkur atriði í kringum þetta mál sem ég vil koma hér lítillega inn á.

Í fyrsta lagi er það umhugsunarverð staðreynd að engin ákvæði hafa verið í lögum um framkvæmd kosninga, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna samkvæmt þeim þremur mismunandi ákvæðum stjórnarskrárinnar sem gera ráð fyrir því að slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur geti farið fram í framhaldi af því í fyrsta lagi að Alþingi ákveði að víkja forseta frá störfum, í öðru lagi að forseti sjálfur beiti málskotsrétti sínum og synji lagafrumvarpi staðfestingar og í þriðja lagi ef Alþingi ákveður að gera breytingar á kirkjuskipaninni.

Ég hef nokkrum sinnum á umliðnum árum, eins og kom reyndar fram í ræðu framsögumanns minnt á þetta mál og innt eftir því hvort menn sæju ástæðu til að undirbúa ákvæði og setja í lög ákvæði sem væru til staðar í þessum efnum. Ég lagði m.a. fram fyrirspurnir og innti hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, eftir þessu, að ég hygg, í tvígang á síðasta kjörtímabili. Ég hef ekki gert það vegna þess að ég teldi það sérstakt vandamál ef á það reyndi að setja reglur og framkvæma slíka kosningu og auðvitað er fráleitt að halda því fram að Alþingi á hverjum tíma væri ekki þeim vanda vaxið að koma þá saman og taka nauðsynlegar ákvarðanir um framkvæmd þeirrar kosningar. Ég hef fremur gert þetta vegna þess að það hefur af og til heyrst það sjónarmið og menn hafa af og til notað þau rök, kannski vegna skorts á öðrum frambærilegri, að benda á það að ekki væru til staðar þessi ákvæði um framkvæmd kosningarinnar til marks um að í reynd væri ekki reiknað með því að á þetta gæti reynt. Því er ég og hef alltaf verið ósammála. Fyrir mér hefur aldrei leikið neinn vafi á því að málskotsréttur forsetans samkvæmt 26. gr. er virkt ákvæði. Menn geta haft á því allar þær skoðanir og allt það mat sem þeir vilja, að menn hafi talið ólíklegt að þessu yrði beitt o.s.frv., en það er bara hvergi að finna því neina stoð í orðanna hljóðan sjálfri í stjórnarskránni né neinum lögskýringargögnum sem henni fylgja að þessi réttur hafi ekki frá byrjun verið hugsaður sem virkur og raunhæfur möguleiki.

Nákvæmlega sama gildir um ákvæðin um að víkja forseta frá embætti eða gera breytingar á kirkjuskipaninni. Dettur einhverjum heilvita manni í hug að sökum þess að út af fyrir sig hefur vantað kannski nákvæmari ákvæði um framkvæmd þeirrar kosningar að þar með hafi aldrei verið gert ráð fyrir því að það gæti komið til breytinga á kirkjuskipaninni? Nei, væntanlega ekki. Og ef það slys yrði nú sem við skulum vona að aldrei verði og hefur svo sannarlega ekki reynt á hingað til, að forseti lýðveldisins lenti þannig út af sporinu að meiri hluta Alþingis sýndist óhjákvæmilegt að víkja honum frá embætti, dettur þá einhverjum í hug að þá væri það ákvæði bara óvirkt af því að ekki stæði einhvers staðar í kosningalögum nákvæmlega hvernig sú kosning ætti síðan að fara fram? Auðvitað ekki, auðvitað hefur þessi málflutningur aldrei staðist þegar betur er að gáð. Ég hygg að miklu nær sé að líta svo á að menn hafi litið á það sem tiltölulega einfalt tæknilegt úrlausnarefni að taka þá nánari ákvörðun um framkvæmd þeirra kosninga rétt eins og menn gerðu t.d. þegar þeir stofnuðu lýðveldið og komu hér saman á þingi og voru ekki lengi að afgreiða ákaflega skýrar reglur um hvernig sú kosning færi fram og lögfestu meira að segja kjörseðilinn sjálfan um það hvort menn samþykktu eða samþykktu ekki stofnun lýðveldisins til nánari fyllingar á þeim lögum sem í gildi eru hvort eð er um kosningar til Alþingis, um kosningar til sveitarstjórna og í ljósi þess að almennar kosningavenjur eru tiltölulega sterkar og hefðarhelgaðar hefur það aldrei verið neitt vandamál að mínu mati að útfæra þessi ákvæði og gera þær ráðstafanir sem gera þyrfti þó að skyndilega kynni að reyna á einhvern af þessum þremur möguleikum sem stjórnarskráin býr yfir og kallað geta fram þjóðaratkvæðagreiðslur um annaðhvort ákvarðanir Alþingis sjálfs eða ákvörðun forseta lýðveldisins.

Frumvarp okkar er, eins og hér var farið ágætlega yfir áðan, skýrt og einfalt. Það lögfestir almennar kosningareglur, almennar hefðir sem framkvæmd þegar á einhver af þessum tilvikum reynir, sem sagt á 11., 26. eða 79. gr. stjórnarskrárinnar.

Varðandi umræður sem hér spruttu upp á liðnu sumri, og voru fyrst og fremst sprottnar upp úr herbúðum ríkisstjórnarflokkanna í framhaldi af ákvörðun forsetans 2. júní síðastliðinn, um að rétt gæti verið að áskilja sérstaklega með ákvæðum um lágmarksþátttöku í kosningunni eða að tiltekinn lágmarksmeirihluti samþykkti afstöðu — það sem kallað er ýmist þröskuldar eða girðingar — má auðvitað margt segja. Í greinargerð með þessu frumvarpi og í framsöguræðu 1. flutningsmanns var farið mjög rækilega yfir það að ekki verða sótt í stjórnarskrána sjálfa né alþjóðasamninga grundvallarmannréttindaákvæði né neitt annað slíkt, í raun ekki nein stoð, fyrir því að gera slíkt. Spurningin er því eingöngu þessi: Er mögulegt að það sé heimilt að áskilja eitthvað slíkt? Það er hin rétta spurning hér því að svarið við hinni spurningunni liggur ljóst fyrir og þar er spurningin þessi: Er ekki hafið yfir vafa að það að lögfesta einfaldar, almennar kosningavenjur, sem sagt að meiri hluti greiddra atkvæða þeirra sem þátt taka í kosningunni ráði, er ekki hafið yfir vafa að það standist? Og svarið er jú. Það er hafið yfir allan vafa. Ekki mun finnast á byggðu bóli lögfræðingur sem vefengir það að ef Alþingi ákveður einfaldlega að láta einfaldan meiri hluta þeirra sem þátt taka í kosningunni ráða úrslitum þá stenst það. Það er framkvæmd sem er hafin yfir vafa. Menn geta haft þá skoðun, þá pólitísku skoðun að æskilegt væri að þetta væri öðruvísi af einhverjum ástæðum, t.d. með hliðsjón af mikilvægi málsins eða með hliðsjón af því að í tveimur tilvikum af þremur getur þetta snúist um að staðfesta eða synja ákvörðun Alþingis, réttkjörinnar löggjafarsamkomu í fulltrúalýðræðisfyrirkomulagi, að þess vegna væri ástæða til að áskilja þarna um tiltekna lágmarksþátttöku eða tiltekinn meiri hluta. En það er þá bara pólitísk skoðun sem menn hafa og má ábyggilega færa rök bæði með og á móti slíku og lagalega úrlausnaratriðið er hvort slíkt sé yfir höfuð heimilt. Ef menn vilja vera öruggir, ef menn vilja ekki taka áhættu þá er niðurstaðan skýr, þá er hún einfalda reglan sem er hafin yfir vafa og á því er byggt hér.

Þannig liggur þetta mál og þannig lá það í sumar augljóslega að allar tilraunir manna til að reyna að kynda upp umræðu um nauðsyn þess að setja þarna inn þröskulda og girðingar voru í raun tilraunir til að flækja málin, tilraunir til að skapa óvissu þegar einföld leið sem var hafin yfir vafa og án nokkurrar óvissu var í boði. Og hún er hér. Og þannig er nú venjan í lýðræðislegum stofnunum, lýðræðislegum samkundum nema eitthvað annað sé sérstaklega ákveðið og að það sé skýrt að heimilt sé að ákveða það. Þá ræður einfaldur meiri hluti þeirra sem taka þátt í kosningunni, þeirra sem vilja nýta rétt sinn til að kjósa og taka afstöðu. Þetta er grundvallarregla lýðræðisins í heiminum. Þetta er nú einu sinni grundvallarregla lýðræðisins í heiminum, þessa fyrirkomulags og menn verða að hafa ærið mikið nesti í malnum ef þeir ætla sér í það ferðalag að fara að tala sérstaklega fyrir einhverju öðru. Þetta vil ég nú segja um þennan þátt málsins.

Varðandi þá staðreynd að þetta frumvarp gengur eðli málsins samkvæmt út frá ákvæðum gildandi stjórnarskrár gætu menn sagt sem svo: „Já, en er ekki hafin endurskoðun á stjórnarskránni sem að hluta til tekur til ákvæða sem hér eiga undir, samanber orðalag í skipunarbréfi þeirrar nefndar að hún skuli einkum líta til ákvæða I., II., og V. kafla stjórnarskrárinnar, sem reyndar fjallar um dómstólana og þarf ekki að ræða um hér?“ Þetta er rétt. En það orðalag er nú svona, þ.e. einkum, og það liggur þegar fyrir í gegnum yfirlýsingar formanns stjórnarskrárnefndarinnar og þá fundi sem þar hafa þegar verið haldnir að út af fyrir sig er ekkert út af borðinu í því og þetta starf gæti tekið til hvaða ákvæða sem er í stjórnarskránni.

Einhverjir kynnu þá að segja: „Já, en er þá ekki rétt bara að bíða eftir því að slíku starfi ljúki?“ Um það vil ég segja að ég held að það geti aldrei verið nema af hinu góða að menn ljúki nú, þó seint sé, því verki að lögfesta í kosningalögum einföld og skýr ákvæði um það hvernig svona kosningar skuli fara fram ef á þetta reynir. Þau bíða þá þar og eru til staðar og verður eftir atvikum einfalt að breyta þeim ef til þess kemur og ef þess þarf því að nú er enginn sem segir að endurskoðun stjórnarskrárinnar — það starf sem þar er rétt nýhafið — leiði til þess að á þessu þyrfti að gera neinar breytingar. Það hefur t.d. ekki sérstaklega verið rætt um það að það starf tæki til þess að endurskoða ákvæði stjórnarskrárinnar um kirkjuskipunina. Segjum nú að þau standi óbreytt og segjum að ákvæðin a.m.k. um mögulega brottvikningu forseta úr embætti samkvæmt 11. grein standi óbreytt. Nú, þá eru þar til staðar kosningalög, skýr ákvæði, og Alþingi verður ekki lengur sakað um þá vanrækslu að hafa ekki sinnt þeirri skyldu sinni að fylla þarna inn í. Auðvitað verður að viðurkenna að það má alveg kalla það vanrækslu af hálfu Alþingis á liðnum árum og áratugum að hafa ekki fyllt inn í þessi ákvæði. En ég lít ekki á það sem neina alvarlega yfirsjón, alvarlega vanrækslu og ég lít ekki á og hef aldrei litið á að það væri neitt sérstakt vandamál þó að manna biði það, ef til þessa kæmi, að koma saman og taka nauðsynlegar ákvarðanir, einfaldar ákvarðanir um þetta mál. Annað eins gera menn.

Varðandi 26. greinina þá er það vissulega rétt og í raun eru bæði 11. og 26. gr. undir í þeim skilningi að þær tilheyra I. og II. kafla stjórnarskrárinnar og gætu auðvitað hugsanlega tekið breytingum. En mér finnst afar ólíklegt annað en að það kæmu þá í staðinn einhver sambærileg ákvæði sem kölluðu á skýran farveg í kosningalögum um hvernig svona kosningar færu fram. Menn skulu ekki útiloka þann möguleika að niðurstaðan verði fyrst og fremst viðbótarákvæði um möguleika þjóðarinnar sjálfrar til að kalla til sín mál og setja þau í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá yrði ákaflega einfalt að bæta við þennan nýja kafla kosningalaganna, þennan nýja XXIV. kafla um þjóðaratkvæðagreiðslur samkvæmt stjórnarskrá. Sennilega dygði ein málsgrein sem bætti inn í þjóðaratkvæðagreiðslu sem færi fram í kjölfar slíks, þ.e. að þjóðin sjálf, t.d. einhver sem væntanlega yrði þá einhver lágmarkshluti kosningabærra manna í landinu, gæti með undirskriftum sínum krafið mál í þjóðaratkvæði. Einnig í því tilviki mundi því svona vinna gagnast mönnum vel. Það varð alla vega niðurstaða okkar flutningsmanna þessa frumvarps að í ljósi nýliðinna atburða og með vísan almennt til stöðu þessara mála og þess að aldrei hefur verið gengið frá ákvæðum um svona kosningar, væri rétt að drífa í því. Ég segi nú ekki að drífa í því. Það er sjálfsagt mál að skoða þetta yfirvegað og rólega og þarf ekki að vera með neinn asa í þeim efnum. En hér liggur þetta sem sagt fyrir í frumvarpsformi tiltölulega skýrt og ætti mönnum ekki að vera neitt sérstakt að vanbúnaði að ganga frá þessu.

Frú forseti. Ég held að ég sjái ekki ástæðu til að hafa um þetta mikið fleiri orð. Auðvitað má velta því fyrir sér hvernig best sé að Alþingi vinni að máli af þessu tagi. Oft hafa verið kosnar sérnefndir sem hafa tekið slík frumvörp, þó að ekki sé um stjórnarskrárbreytingu að ræða í þessu tilviki heldur kosningalagabreytingu þá hafa þær oft verið meðhöndlaðar á sérstakan hátt í meðförum þingsins og gæti vel komið til greina í þessu tilviki. Eins er að sjálfsögðu upplagt að Alþingi eða viðkomandi sérnefnd hafi samband við þá nefnd sem vinnur að endurskoðun stjórnarskrárinnar og beri sig saman við hana þó ekki sé um stjórnlagabreytingu að ræða, tillögu til slíks, heldur einfalda breytingu kosningalaga sem ekki kallar á endurtekið samþykki Alþingis, þjóðarinnar o.s.frv. Engu að síður tengist þetta enda verið að útfæra ákvæði sem snúa alfarið að kosningum sem framkallast á grundvelli mismunandi ákvæða stjórnarskrárinnar.

Ég bind því vonir við að menn taki á móti málinu af velvilja og með því hugarfari að ýta því ekki út af borðinu heldur skoða það vandlega og komast til botns í því, helst fyrir vorið, hvort ekki sé skynsamlegt að lögfesta ákvæðin. Þar með er a.m.k. sá hluti þrætunnar úr sögunni sem upp hefur komið í umræðum um þann möguleika að á slíkar kosningar gæti reynt og heldur betur og sannanlega í það eina skipti sem það hefur gerst, þ.e. í framhaldi af ákvörðun forsetans í júnímánuði sl.

Þá þurfa menn ekki að fara í þann þátt málsins að engar reglur séu til um hvernig eigi að gera þetta, þá lægi það fyrir. (Gripið fram í: Hver hélt því fram?) Því hefur iðulega verið haldið fram, hv. þingmaður. (Gripið fram í: Af hverjum?) Ja, það hefur iðulega verið sagt hér. Ég man t.d. að núverandi hæstv. forsætisráðherra, þáverandi hæstv. utanríkisráðherra margnotaði þetta sl. sumar, sérstaklega til marks um að mönnum hefði aldrei til hugar komið að á þetta mundi reyna. Til marks um að Alþingi hefði aldrei séð ástæðu til að setja reglur þar um — sem er auðvitað enginn málflutningur, engin rök. (Gripið fram í.) Nei, nei, það er til þessa sem ég var að vísa, að þá þurfa menn ekki að fara í þá umræðu, þá liggja reglurnar fyrir. Þær eru líka á sinn hátt viðurkenning á því og yfirlýsing um að Alþingi geri sér grein fyrir að ákvæðin eru virk, þau eru gild — nema hvað — þau standa í stjórnarskránni. Bíddu, halda menn að það geti verið að einhver hluti stjórnarskrárinnar sé bara dauður og ómerkur bókstafur? Það held ég ekki. (Gripið fram í.) Ekki þegar um raunverulegar heimildir af þessu tagi er að ræða, raunverulega atburði. (Gripið fram í.) Það er ekki sambærilegt, hv. þingmaður. Ég held að það verði ekki sagt um neitt af þessum tilvikum að neins staðar sé að finna stoð fyrir því að ákvæðin séu með einhverjum hætti ógild eða óvirk, dauður bókstafur, það er fráleitt. Allt þetta getur augljóslega gerst. Það er fræðilegur möguleiki og þar með getur það gerst. Þar með ber okkur að líta svo á að þetta séu gild, lifandi ákvæði sem varða forsetann og embætti hans, varða málskotsréttinn í 26. gr. og kirkjuskipanina í 79. gr.