132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Munnleg skýrsla utanríkisráðherra um varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna.

[12:46]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar fellir stóra dóma, horfir ekki til framtíðar í þessu máli og þessari umræðu sem er hér í dag en ég tel að eins og staðan er í dag feli hún í sér miklar og stórar áskoranir fyrir okkur.

Það sem liggur fyrir núna er að Bandaríkjamenn hafa ákveðið að flytja allar herþoturnar í burtu og þyrlusveitina ásamt öllum mannskap og búnaði sem fylgir en það er líka ljóst að varnarsamningurinn er áfram í gildi. Í viðræðum á næstunni kemur í ljós hver niðurstaðan um hann verður og hvernig hernaðarvarnir Íslands verða tryggðar á grundvelli þess samnings. Það er framtíð annars vegar og framkvæmd varnarsamningsins sem verður rætt í viðræðum núna á næstunni.

Annað sem skeður er að rekstur Keflavíkurflugvallar færist á okkar hendur og fyrir fjölmarga af starfsmönnum varnarliðsins þýðir þetta ekki annað en nýjan vinnuveitanda en það er auðvitað ljóst að hvað aðra varðar má segja að brotthvarfið komi ekki á alversta tíma heldur á tiltölulega hentugum tíma vegna góðs atvinnuástands í landinu. En eins og ég sagði finnst mér þessar aðstæður sem við stöndum frammi fyrir fela í sér stórar áskoranir. Ég get þó tekið undir að þær voru ekki alls kostar ófyrirséðar og þær þykja auðvitað hafa borið nokkuð bratt og brátt að miðað við hvernig þetta leit út til skamms tíma. En mér virðist líka þurfa að halda því á lofti í þessari umræðu, og hefur að vísu verið lengi ljóst, að öryggishugtakið hefur breyst og fengið allt aðra, nýja og víðtækari merkingu með breyttri heimsmynd og nýjum ógnum og við þurfum að takast á við það eftir öðrum leiðum en með hefðbundnum hernaðarvörnum. Við þurfum að halda áfram að skilgreina þessar ógnir markvisst og við þurfum líka að skilgreina þá hagsmuni sem við ætlum að standa vörð um. Öryggi okkar snýst um annað og meira en viðbúnað á Keflavíkurflugvelli. Það snýst heldur og ekki síður um aðgerðir gegn útbreiðslu smitsjúkdóma, gegn mengun hafsins, gegn skipulagðri alþjóðlegri glæpastarfsemi og hryðjuverkum og það snýst um baráttu fyrir mannréttindum og lýðræði.

Nýjar ógnir kalla líka á ný úrlausnarefni í stjórnsýslunni og hér á Alþingi og í umræðunni almennt og þær gera kröfur til samstarfs og samhæfingar þeirra krafta sem við sjálf ráðum yfir. Loftvarnir eru áfram þýðingarmiklar. En við þurfum líka að huga að því að tryggja samhæfingu þeirra og samstarf við þá sem er öðrum fremur ætlað að bera ábyrgð á innra öryggi okkar og hafa fyrr verið nefndir í umræðunni. Það er lögreglan, það er Landhelgisgæslan, hjálparsveitirnar, slökkviliðið, almannavarnir. Við þurfum að huga að því að styrkja samstarf og samhæfingu þessara aðila og samstarf og samhæfingu við það samstarf sem við erum í á grundvelli varnarsamningsins. Ég vil að því leyti sem hæstv. dómsmálaráðherra fjallaði um þetta áðan taka undir orð hans. Við þurfum áfram að hafa samstarf við aðrar þjóðir og okkur er ýmissa kosta völ. Við erum aðilar að Schengen-samstarfinu. Við erum áfram aðilar að Atlantshafsbandalaginu, og í samningaviðræðum við Bandaríkjamenn á grundvelli varnarsamningsins hljóta menn að ræða — ég hef ekki heyrt annað á orðum hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra — hvernig við ætlum að koma á samstarfi um þessar nýju ógnir, ekki ógnir úr lofti, ekki hernaðarógnir heldur þessar nýju ógnir sem ég hef núna farið yfir. Sú breyting hlýtur að verða á varnarsamstarfinu sem nýjar ógnir kalla á.

Ég held líka að við eigum að líta meira til norræns samstarfs. Við höfum verið að leggja drögin að og efla norrænt lögreglusamstarf og við erum að reyna, til að geta auðveldað það samstarf, að koma í gegnum þingið frumvarpi, sem auðvitað fer í gegnum þingið, um að koma á fót svokallaðri greiningardeild sem á m.a. að greina þessar nýju ógnir. Ég get ekki séð að það sé hægt annað en að líta mjög áleitið til annars norræns samstarfs eins og t.d. um eftirlit á hafsvæðinu og um leit og björgun. Við höfum eflt sérsveit lögreglunnar. Við höfum hrint í framkvæmd skipulagsbreytingum í lögreglunni og til stendur að koma á fót þessari greiningardeild. Við erum með þessu og ýmsu öðru sem við þurfum að takast á við, miðað við þessar nýju áskoranir og aðstæður, að gera okkur það kleift að mæta þessum nýju ógnum.

Frú forseti. Ég lít á þetta sem áskoranir sem við þurfum að takast á við miðað við þessa breyttu heimsmynd og svo þessar breyttu aðstæður sem við stöndum frammi fyrir frá og með deginum í gær.