133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

trjáræktarsetur sjávarbyggða.

51. mál
[18:26]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þingsályktunartillaga um trjáræktarsetur sjávarbyggða sem ég ásamt fleirum er flutningsmaður að er komin til síðari umræðu. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er hv. þm. Guðjón Hjörleifsson. Aðrir flutningsmenn eru auk mín hv. þingmenn Drífa Hjartardóttir, Kjartan Ólafsson og Lúðvík Bergvinsson. Þótt aðrir flutningsmenn séu þingmenn Suðurkjördæmis vil ég lýsa yfir ánægju minni með að fá að vera meðflutningsmaður á tillögunni, ekki síst málefnisins vegna. Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að hefja undirbúning að stofnun trjáræktarseturs sjávarbyggða í Vestmannaeyjum sem hafi það markmið að rannsaka særoks- og loftslagsbreytingar á trjágróðri og trjárækt á eyjum í Norður-Atlantshafi, einkum Íslandi, Færeyjum, Hjaltlandi, Orkneyjum, Suðureyjum og Grænlandi.“

Ég tel að þetta verkefni sé merkilegt. Þó að flutt sé tillaga um að stofna trjáræktarsetur og henni vísað til ráðherra til að vinna úr má vel vera að ráðherra finni málinu annan farveg eins og komið hefur fram í máli hv. þingmanna. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir minntist á það áðan að þegar farið verður að vinna málið í smáatriðum getur mönnum fundist eins gott að byggja það upp sem verkefnasvið t.d. við Náttúrustofu Suðurlands, sem er í Vestmannaeyjum. En það er eðlilegt að tillagan sem slík beini sjónum afmarkað að þessu verkefni með því að stofna sérstakt trjáræktarsetur. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að önnur nálgun á hina endanlegu framkvæmd gæti verið inni í myndinni.

Í tengslum við þessa tillögu hefur verið nefnt að hún sé lítil í samanburði við uppbyggingu atvinnulífs í heild sinni, fyrir samfélag upp á nokkur þúsund, þrjú, fimm, tíu eða fimmtán þúsund manns. Þessi tillaga er í sjálfu lítil í því samhengi en hún er heldur ekki hugsuð þannig. Hún er þó engu að síður mikilvæg hvað varðar sjálft verkefnið. Þetta er hluti af náttúru og menningarsamfélagi hverrar byggðar á jörðinni. Það að fá verkefni af þessu tagi á svæði eins og Vestmannaeyjar er menningarauðgandi fyrir utan allar rannsóknirnar sem þar yrðu stundaðar.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir velti fyrir sér stjórnsýslulegri stöðu verkefnisins og það má velta því fyrir sér hvar verkefnið mun endanlega vistast en skógræktin heyrir formlega undir landbúnaðarráðuneytið. Því er alveg eðlilegt að málið sé a.m.k. vistað þar á þessu stigi. Landbúnaðarráðuneytið er líka, ef rétt er á málum haldið, eitt allsherjarumhverfisráðuneyti. Starfssvið þess er jú verndun og nýting landsins gæða. Það er alveg hárrétt að hér er vikið að víðtækari athugunum en þeim sem lúta að trjárækt. Það má segja að vikið sé að rannsóknum á vistfræði, vistkerfum og áhrifum ýmissa ytri þátta, ekki bara á tré heldur líka á annan gróður þótt sjónum sé einkum beint að trjám.

Eitt af því sem mér finnst styðja það að verkefnið sé sett upp í Vestmannaeyjum, áhrif særoks og annarra þátta sem einkum fylgja nálægð við sjóinn er rannsóknastöðin í Surtsey þar sem rannsakað hefur verið landnám dýra og gróðurs. Þar hefur býsna mikil þekking náð að byggjast upp. Ég er þeirrar skoðunar að rannsóknir á uppbyggingu lífríkis í Surtsey hefðu alfarið átt að fara undir náttúrustofu í Vestmannaeyjum og háskólasetrið þar þótt aðrir sérfræðingar hefðu komið að því að vinna þau verk og væru í samstarfi við aðrar rannsóknarstofnanir. En það skiptir miklu máli að rannsóknir á þessum vettvangi séu á ábyrgð heimamanna, njóti metnaðar þeirra til að standa vel að málum og að þeir njóti jafnframt þeirrar faglegu uppbyggingar og þekkingar sem slíkt starf býður upp á. Ég tel mikilvægt, varðandi verkefni af þessu tagi, sem lúta að rannsóknum á heimaslóð, þótt þau hafi svo miklu víðtækari skírskotun, að ábyrgðin og forsjáin sé í höndum heimafólks en byggt upp í samstarfi við aðra aðila.

Ég get rifjað það upp að í starfi mínu sem skólastjóri á Hólum lagði ég mikla áherslu á, eins og þingmenn hafa heyrt, sjálfstæði skólans til að taka að sér verkefni sem hann hefur síðan gert samninga við aðra um. Skólinn hefur ekki þurft að búa yfir allri fagþekkingunni sjálfur en ábyrgðin á verkefninu, ráðningar þeirra sem fóru með mestu ábyrgðina voru á höndum skólans. Þannig gat stofnunin byggt upp þekkingu sína. Vandamál setra er einmitt ósjálfstæði þeirra. Þau eru oft útibú frá miðlægri stofnun allt annars staðar og þrátt fyrir mikinn velvilja í garð verkefnanna verður metnaðurinn ekki hinn sami í uppbyggingu starfsins þar.

Þetta er vandamál háskólasetranna. Við getum tekið háskólasetrið á Ísafirði sem dæmi, af því höfum fjallað um það þessa dagana í tengslum við að efla og styrkja byggð á Ísafirði og menningar- og rannsóknastarf. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að háskólasetrið þar, háskólinn eða hvaða nöfnum sem menn vilja nefna það, eigi að vera sjálfstæð stofnun, heyra undir ríkið, njóta faglegs styrks og metnaðar heimafólks. Önnur verkefni sem koma á Ísafjörð, t.d. á vegum Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu og annarra stofnana, ættu að tengjast háskólasetrinu á Ísafirði. Starfsmennirnir ættu að vera ráðnir þar en samningar gerðir um verkefnin við þær stofnanir sem í hlut eiga. Fjármagnið ætti að fara beint frá ríkisvaldinu til viðkomandi stofnunar sem hefði það til ráðstöfunar og gæti gert samninga við aðra. Þegar þetta er byggt upp á útibúaformi, Hafrannsóknastofnun ræður starfsmanninn og hefur yfir honum að segja og hann gerir síðan samstarfssamning við háskólasetrið, verður þetta alltaf laust í reipunum og sá metnaður sem þarf verður ekki til.

Ég tel mjög mikilvægt, þegar við ræðum þessa uppbyggingu í Vestmannaeyjum, að þótt stílað sé upp á fullkomið faglegt samstarf við alla þá aðila sem komið geta að málum sé verkefnið sem slíkt vistað hjá heimaaðila, hvort sem það er trjáræktarsetur eða náttúrustofa í Vestmannaeyjum. Hvort tveggja væri á ábyrgð heimamanna, stofan gæti tekið að sér verkefni, fengið fjármagn á fjárlögum og unnið það í samstarfi við aðrar stofnanir.

Mér þykir mikilvægt að koma þessu að, við erum að byggja upp setur um allt land, útibú frá öðrum stofnunum, og við eigum í hreinustu vandræðum með að tryggja þeim örugga umgjörð, hvort sem það er háskólasetur á Húsavík, Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði, Ísafirði eða nýstofnað setur í Stykkishólmi. Heimafólk hefur miklar væntingar til þessara setra og löngun og metnað til að byggja upp störf og viðfangsefni á þeim sviðum sem krefjast sérmenntunar. Ef þetta eru útibú er veikleikinn sá, hvort sem er frá Háskóla Íslands eða öðrum góðum stofnunum, að fjárhagsleg ábyrgð og ábyrgð á ráðningum er á hendi fjarlægs aðila. Það verður þannig. Ég tel afar mikilvægt varðandi þróun þessara mála að búa þessum stofnunum sjálfstæði. Þær þurfa að vaxa og dafna á þeim forsendum sem heimamenn geta byggt upp, þ.e. á forsendum fólksins sem þar vinnur og á forsendum atvinnulífs í viðkomandi byggðarlagi.

Ég legg áherslu á að trjáræktarsetrið í Vestmannaeyjum gæti fengið mörg góð verkefni sem er vel er hægt að vinna á litlum stofnunum. Stórar stofnanir eru í sjálfu sér ekkert betri en litlar stofnanir til að takast á við ný verkefni, fjarri því. Litlar stofnanir hafa oft og tíðum miklu meiri sveigjanleika til að taka á málum á nýjan hátt. Þær hafa sveigjanleika, viðbragðsflýti, stuttar boðleiðir og þannig mætti áfram telja. Nýsköpunin verður oftast í litlum stofnunum, í litlum fyrirtækjum. Menn skyldu fara varlega á tímum eins og núna þegar menn tala um að allt þurfi að vera svo stórt. Menn tala um að sameina þurfi Kennaraháskólann og Háskóla Íslands til að ná fram stærðarhagkvæmni. Drottinn minn dýri. Ef menn tíunda það sem vandamál er eitthvað annað að. Ég er ekki á móti því að stofnanir séu stórar en stærðin er sjaldan lausn á viðfangsefnum eða verkefnum sem fólki finnst ekki ganga upp. Þá er eitthvað annað að.

Í mínu starfi reyndi ég að ef stofnunin og það starfsfólkið þar hefði klára sýn, vilja og metnað til starfans þá sótti það samstarf til að byggja upp starf sitt. Það er miklu meiri hætta á að maður tapi því ef það fer inn í stærri stofnanir. Þá getur maður tapað því frumkvæði og þeim sveigjanleika sem nauðsyn er á til að slík fyrirtæki fái þrifist. Menn eiga að horfa á hina faglegu hlið. Það er oftast metnaður einstaklinganna, metnaður fólksins sem næst stendur, sem ræður framvindu mála.

Herra forseti. Þetta er ágætt mál sem við ræðum vegna þess hvað það býður upp á mikla möguleika í samfélagi eins og í Vestmannaeyjum, í samstarfi við þá aðila sem þar eru fyrir á fræðilegum og vísindalegum vettvangi. Það skiptir einnig máli til að njóta og eiga aðgang að þekkingu og reynslu þess fólks sem hefur búið við þær aðstæður áratugum saman. Menn skyldu ekki gera lítið úr alþýðuþekkingu hvað varðar áhrif veðurfars, særoks o.s.frv. á lífríkið.

Ég fer að láta ræðu minni lokið. Ég ítreka að það er ekki stærð stofnana sem skiptir máli. Það eru metnaður og möguleikar einstaklinganna og þess samfélags sem utan um þá stendur sem vegur þyngst. Sjálfstæði og möguleikar heimafólks til að bera ábyrgð á verkefnum og þróa áfram ræður oft og tíðum úrslitum. Þetta verða mín lokaorð mín í þessari umræðu, um trjáræktarsetur sjávarbyggða með aðsetur í Vestmannaeyjum með þeim verkefnum sem talin eru upp í þingsályktunartillögunni.

Látum verkefnið byggjast upp og eflast á forsendum þess fólks sem tekur það að sér og ber það fram en ekki missa það inn í einhverja óskilgreinda hít stærri stofnana. Við getum samt notið faglegs styrks og samstarfs annarra stofnana, hvort sem þær eru stórar eða litlar, hér á landi eða annars staðar. Við njótum styrks þeirra í formi samstarfs. Ef við förum þá leið tel ég að þetta mál geti átt sér farsæla framtíð, hvert svo sem verður umfang þess og hvort sem það verður vistað til frambúðar hjá landbúnaðarráðuneytinu eða öðrum ráðuneytum.