135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

frumvarp um matvæli -- löggæsla á Suðurnesjum -- þjóðlendur.

[13:47]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég er hér með fyrirspurn til formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur, um stuðning þingflokka Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar við fyrirhugaðar breytingar á lögum um tollverði og sameiningu allra tollvarða undir eina yfirstjórn.

Tilefnið er að Alþingi hefur verið lítilsvirt af Birni Bjarnasyni, hæstv. dómsmálaráðherra sem gefið hefur fyrirmæli til hæstv. fjármálaráðherra um að breyta lögum um tollgæslu í landinu sem þó beinist aðallega að lögregluembættinu á Suðurnesjum. Við í Frjálslynda flokknum höfum óskað eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á lögregluembættinu á Suðurnesjum og vegna þess ætti að fresta því að leggja fram frumvarp um breytingar á lögregluembættinu á Suðurnesjum þangað til sú úttekt hefði farið fram.

Fyrir 16 mánuðum varð sameining á tveimur embættum, sýslumannsembættinu í Keflavík og sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli, og þá voru rökin fyrir sameiningu sparnaður, hagræðing og samnýting á mannafla. Stjórnunarkostnaður átti að lækka og síðast en ekki síst átti að auka löggæslu á Suðurnesjum en það hefur reyndar verið svikið af hálfu dómsmálaráðherra. Þess vegna spyr ég formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) hvort hún telji að það sé stuðningur við þetta.