135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[15:43]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Það sem mestu máli skiptir í þeirri umræðu sem hér fer fram er að það er sameiginlegur skilningur alls þingheims og ríkisstjórnar að stefna að því að sem mestur og bestur árangur náist í baráttunni við of mikla hlýnun jarðar. Þá skiptir miklu að horfa á vandamálið með hnattrænum hætti, þ.e. að leita þeirra lausna sem líklegastar eru til að leysa vandamálið fyrir jarðarbúa alla.

Íslenska ákvæðið svokallaða er í sjálfu sér ekkert sérstakt íslenskt ákvæði. Það er ákvæði sem byggir á þeirri hugsun að hnýta saman efnahagslegan hvata við það að nota umhverfisvæna orkugjafa og umhverfisvæna tækni eins og mögulegt er til þess að draga úr mengun. Ákvæðið byggir á því, og það nær í raun og veru einungis til þeirra ríkja sem menga minna en 0,05% af heildarkoldíoxíðsnotkun heimsins, að gerð er krafa um endurnýjanlega orku og notkun hennar þarf að leiða til samdráttar á losun í heiminum. Það er grundvallaratriði. Einnig þarf að nota bestu fáanlegu framleiðslutækni við það.

Það hlýtur að vera stefna íslenskrar ríkisstjórnar að byggja á þessu ákvæði, á þessari hugsun. Ég tel að það væri ábyrgðarleysi að gera það ekki bæði vegna þess að efnahagslegir hagsmunir Íslands kalla á það og hins vegar vegna þess að þegar horft er á málið í heild þá leiðir þessi hugsun til þess að við náum sem mestum og bestum árangri í baráttunni við aukna og of mikla hlýnun jarðar.

Ég tel einnig að það frumkvæði sem umhverfisráðherra sýndi hér í desember síðastliðnum þar sem hún benti ráðherrum í Evrópu, m.a. Norðurlandaráðherrum, á sérstöðu Íslands hvað varðar flugsamgöngur. Hún beindi athygli okkar að því að það eru ekki bara samningsmarkmið okkar (Forseti hringir.) við Kyoto-bókunina heldur líka í annarri samvinnu á alþjóðavettvangi bæði við ríki ESB og önnur ríki sem við eigum samstarf (Forseti hringir.) við.