138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

staðan að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:31]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum Icesave í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Það hefur heyrst á máli manna að það er stigið aðeins varlegar til jarðar en oft áður. Er það gott.

1,8% sögðu já við helsta baráttumáli hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar og hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, þessu baráttumáli þar sem allt hefur verið undir síðan 5. júní. Það er afgerandi niðurstaða þjóðarinnar hvert hún vill að málið stefni og það er engu að síður athyglisvert að heyra í dag að þeir sem sögðust ætla að axla pólitíska ábyrgð á þessu máli sjálfir, persónulega, eru að skjóta sér undan henni.

Þetta hefur valdið þingi og þjóð meiri áhyggjum og meiri vandræðum en tali tekur og sú ákvörðun hæstv. fjármálaráðherra að koma aftur með málið inn í þingið í haust eftir þverpólitíska samstöðu um það í allt sumar gerði illt miklu verra. Ég tel sjálfur sjálfsagt að þeir sem beri slíka pólitíska ábyrgð axli hana með viðeigandi hætti. Hér þurfa að verða breyttir starfshættir og breytt vinnubrögð. Ég upplifði það sjálfur í gær í umræðunni sem ég heyrði að þrír stærstu flokkarnir á Alþingi eru enn þá fastir í gömlu hjólfarapólitíkinni sem mun að sjálfsögðu að óbreyttu aftur keyra okkur fram af brúninni. Hafa menn ekkert lært? Er ekki hægt að gera hlutina öðruvísi? Þetta eru gamlar aðferðir, frú forseti, þetta eru úreltar aðferðir og þetta eru sömu aðferðirnar og munu aftur leiða til hruns. Þetta snýst ekki um flokkshagsmuni og stjórnmálaflokka. Þetta snýst um ný stjórnmál. Það þarf að vinna hlutina öðruvísi á Alþingi Íslendinga.

Að mínu viti þarf kynslóðaskipti í ríkisstjórninni. Það þarf ekki endilega nýja ríkisstjórn, en það þarf kynslóðaskipti. Það þarf nýja forustu í stjórnarflokkana og ég tel að það eigi t.d. einfaldlega að leyfa varaformönnum þeirra flokka að taka við keflinu. Það þarf að koma á einhvers konar starfsstjórn ef menn eru að tala um að vilja pólitískan stöðugleika og enginn hefur talað um annað en að menn vilji helst ekki kosningar. Ef á að koma á einhvers konar pólitískum stöðugleika þarf að koma á einhvers konar verkefnastjórn sem gengur þvert á alla flokka. Sú verkefnastjórn ætti að taka sér kannski tvö ár í að reyna að koma efnahagslífinu af stað aftur og boða svo til kosninga. Það er eini raunhæfi möguleikinn á pólitískum stöðugleika ef það er það sem menn sækjast. eftir. Ef menn vilja kosningar á kosningar ofan halda menn áfram sömu gömlu vinnubrögðunum. Það er einfaldlega þannig. Það er ekki æskilegt, en það er það sem mun gerast.

Ég leyfi mér að velta upp eftirfarandi: Hvað í stefnuskrám flokkanna sem eru á þingi getur sameinað þá? Það er nefnilega þó nokkuð ef menn leita eftir því og ef menn eru viljugri til samstarfs en hefur verið hingað til. Núverandi flokkapólitík og þau hjólför sem sú pólitík er föst í koma hins vegar í veg fyrir meiri samvinnu á þinginu. Það er ekki endilega mikill málefnalegur ágreiningur um helstu mál en flokkapólitíkin stendur í veginum.

Frú forseti. Ef tekst að breyta þessu skapast sá vinnufriður sem þarf til að þingið vinni í þágu þjóðarinnar. Öðruvísi skapast sá vinnufriður ekki. Við munum þá áfram eyða tíma þingsins í karp um það hvort eigi að vera kvöldfundur um óvinsæl mál eða ekki í staðinn fyrir að taka einfaldlega þau mál af dagskrá og afgreiða brýnustu málin. Það er þörf á breyttu vinnulagi, frú forseti, og það er okkar, þessa þings sem situr hér, þessara 63 þingmanna og ráðherra, að sjá til þess að vinnubrögðunum verði breytt. Við höfum 60 og eitthvað ára gamla reynslu af þessum gömlu vinnubrögðum og þau leiddu ekki til góðs þegar upp var staðið. Þjóðin á það einfaldlega skilið að þingmenn hennar sinni almannahag fyrst og fremst en láti ekki flokkshagsmuni eða aðra sérhagsmuni ofar þjóðarhag. Ég beini því til þingsins í dag að lokinni þessari atkvæðagreiðslu að við reynum að setjast yfir þau mál sem liggja í nefndum þingsins og komast að samkomulagi um þau með þarfir og hagsmuni almennings í huga. Þess vegna erum við á þinginu, ekki út af neinu öðru.