138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[16:38]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég get ekki hjá líða að taka þátt í þessari merkisumræðu. Það eru allir þingmenn jafnir, hvaðan sem þeir koma, úr hvaða kjördæmi eða flokki sem þeir koma. Það mega allir þingmenn spyrja hvaða ráðherra sem er að svo að segja hverju sem er. Þannig er það. Ég gæti náttúrlega kvartað mjög mikið yfir því hér, frú forseti, að formenn stjórnarandstöðuflokkanna séu hér uppi fyrstir í hverjum einasta óundirbúnum fyrirspurnatíma sem ég man eftir í allan vetur, en þannig er það bara og ég lýt vilja forsetans í þeim efnum eins og öðrum.

Hvað varðar kynskipta umræðu, væri kannski það tilraun sem vert væri að gera, frú forseti, að skipta hér í kvennaflokk og karlaflokk, (Gripið fram í.) taka bara (Gripið fram í.) Hjallastefnuna á þingsalinn og leysa málin með þeim hætti, svona eins og gert er í gufubaðinu, (Forseti hringir.) konutímar og karlatímar. (Gripið fram í.)