138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

mannvirki.

426. mál
[18:53]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir spurningu hans og vangaveltur. Að mínu viti hefur sannarlega verið haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um þessa þætti og atriði eins og önnur en það er rétt sem þingmaðurinn nefnir, og hann kom inn á mína yfirferð þegar ég lauk umræðu varðandi endurskoðun á skipulagslögunum, að í öllum þessum geira þurfum við að gæta að tveimur hliðum hins opinbera, þ.e. sveitarfélögunum annars vegar og ríkinu hins vegar. Í frumvarpinu um mannvirki er auðvitað fyrst og fremst um að ræða neytendalöggjöf, þ.e. þetta er löggjöf sem snýst um að styrkja og tryggja stöðu neytenda á þessu sviði enn betur en áður hefur verið gert. Við höfum því miður allt of mörg dæmi um að eftirlit og eftirfylgni hefur verið brotakennd og ekki nægilega góð og að einstaklingar og fjölskyldur hafi lagt allan sinn ævisparnað og allt sitt í íbúðarhúsnæði sem hefur síðan ekki staðið undir væntingum vegna þess að það hefur ekki verið gætt nægilega vel að gæðum. Þarna erum við því að tryggja að Ísland sé vonandi komið á sama stað og nágrannalönd okkar hvað þetta varðar. Ég treysti enn og aftur nefndinni til að rýna efasemdir sem hér koma upp og mér finnst sjálfsagt að gefa pláss til þess en fyrst og fremst er þetta gert með hagsmuni neytenda og hagsmuni almennings að leiðarljósi.