140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:04]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég held einmitt að þetta mál sé ákveðin prófraun fyrir okkur, hvort okkur er alvara með að taka upp bætt og betri vinnubrögð hvað þetta varðar eða hvort fyrir löngu sé búið að ákveða að þetta verkefni eigi að vinna og síðan séu fundnar leiðir til að redda því, hvort það sé þannig.

Hv. þingmaður kom einmitt inn á þetta þegar hann sagði að ræða ætti hlutina eins og þeir eru og það væri þá rétt að málið færi inn í samgönguáætlun og inn í þá umræðu væru vegnir kostir eins og vegtollar o.s.frv.

Mig langaði einfaldlega að spyrja hv. þingmann, í stöðunni eins og hún er núna, hvernig honum finnist best á málum haldið í framhaldinu, þ.e. hvernig læra megi af Svíum, hvernig halda eigi á málum í þessum efnum. Hvernig getum við sem best unnið þetta mál? Sér hv. þingmaður fram á að hv. samgöngunefnd ætti að koma þar eitthvað að eða hvernig verður best að vinna þetta í framhaldinu og taka á þessum veikleikum? Mig langar þá að ítreka aftur spurningu mína varðandi Ríkisábyrgðasjóð, hvort hann telji að á einhvern hátt hafi verið tekið tillit til ábendinga Ríkisábyrgðasjóðs í þessu tilliti.