144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

för ráðherra til Kína.

[15:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hvað varðar fyrsta lið fyrirspurnarinnar, um vef ráðuneytisins, var því sem þar stóð ekki breytt heldur var það uppfært, eins og ég hef skilið það, þ.e. bætt var við upplýsingum vegna þess að upphaflegi textinn hafði valdið misskilningi um að þessi tvö fyrirtæki, þ.e. Orka Energy og Marel, hefðu verið með í för og hefði mátt skilja það sem svo að þau hefðu komið með í sendinefnd frá Íslandi. Jafnvel voru gerðir að því skórnir að greitt hefði verið fyrir þessi fyrirtæki. Svo er ekki, fulltrúar þessara fyrirtækja voru staddir í Kína á þessum tíma og það skýrir raunverulega þær breytingar sem hv. þingmaður spyr um.

Hvað varðar þáttinn í hverju ráðgjöf væri fólgin sem hv. þingmaður nefndi hér þá er til þess að taka að á þeim árum sem ég var utan þings og þurfti að vinna fyrir mér með öðrum hætti þá vann ég hjá einkaaðila, fyrirtæki, reyndar fleirum en þessum, nokkrum. Ég verð að taka það fram að í sjálfu sér ber mér engin skylda til að segja sérstaklega frá því, en úr því að hv. þingmaður spyr var það þannig að ég aðstoðaði þar við að kanna möguleika á að tengja þetta fyrirtæki við fjárfesta í Singapúr. Það er rétt að taka það fram að þetta fyrirtæki er þannig samansett að á þessum tíma var það í meirihlutaeigu manna sem eru ekki Íslendingar, það eru útlendingar. Það eru engir íslenskir fjármunir í þessu fyrirtæki. Reyndar er rétt að taka það fram að þetta fyrirtæki hefur keypt vinnu af íslenskum vísindamönnum og sérfræðingum fyrir nokkra milljarða á síðastliðnum árum og hefur þar með leitt til aukins hagvaxtar í landinu og gefið íslenskum sérfræðingum og vísindamönnum frábært tækifæri til að sinna störfum sínum.

Hvað varðar frumkvæðið liggur fyrir að á mínu verksviði eru samningar sem snúa að samstarfi á orkusviðinu, vísindarannsóknum sem þar liggja undir. Þar af leiðandi var alveg eðlilegt að þetta fyrirtæki kæmi þar að, þ.e. kæmi á fundum, vegna þess að burðarásinn í samskiptum Íslands og Kína á sviði orkuvísinda og orkusamstarfs liggur þar í gegn. Ég hafði vissulega áhuga á því í þessari ferð eins og aðrir hafa haft að sjá hvaða framkvæmdir þetta væru (Forseti hringir.) ... í Baoding, sem er vinabær Hafnarfjarðar sem hæstv. fyrrverandi ráðherra þekkir til. (Forseti hringir.) Það skýrir þar með þann þátt (Forseti hringir.) ...