144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

svör við fyrirspurn.

[16:28]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma inn í umræðuna og viðurkenna að það þurfi að senda inn svör. Það sem ég hef verið að biðja um og er skriflegt er að fá bara fram gögn sem ég veit að hann hefur lagt inn í umræðuna um Hvanneyri. Ég vil fá þau gögn svo ég geti rætt þau opinberlega, svo ég geti tekið þátt í umræðunni. Þau eru einhver leynigögn. Ég er búinn að biðja um þetta, fyrst af mikilli kurteisi sem fulltrúi í hv. allsherjar- og menntamálanefnd með tölvupósti af því að ég ætlaði ekkert að gera mál úr þessu, ég ætlaði bara að fá gögnin. Ég fæ ekkert svar. Ég bið skriflega og það líða margir mánuðir. Á sama tíma er kominn hópur, segir hæstv. ráðherra, sem á að skoða hvort eigi að gera eitthvað ef það verður af sameiningu. Þinginu er haldið utan við þetta. Það er verið að gjörbreyta íslenska menntakerfinu án þess að Alþingi Íslendinga komi nokkurn skapaðan hlut að því. Það er það sem er alvarlegt og um það snýst þessi umræða.

Maður er seinþreyttur til reiði, en það er ekki hægt að búa við að eiga að taka (Forseti hringir.) þátt í umræðu um eitthvað sem eingöngu er utan þings og ekki er sinnt af hæstv. ráðherrum. Þetta er ekki spurning um að gleðja ráðherra, eins og hér kom fram, þetta er spurning um að gleðja almenning í (Forseti hringir.) landinu með því sem við erum að gera. (Gripið fram í: Og Framsóknarflokkinn.)