144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

innritunargjöld öryrkja í háskólum.

547. mál
[17:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, fyrir að hreyfa við þessu mjög svo þarfa máli og greinilegt að það hefur verið ástæða til. Það hefur orðið ráðuneytinu tilefni til að draga saman upplýsingar um hvernig þessum málum er fyrir komið í háskólunum. Það vekur auðvitað athygli að það skuli vera svona mikið misræmi að tveir af opinberu háskólunum, Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri, eru með útfærðar reglur um tiltekna afslætti en hinir opinberu háskólarnir ekki og einkareknu háskólarnir í engum tilvikum.

Ég er ekki viss um að til frambúðar eigi að hafa þetta þannig að tilviljanakennt sé eftir því hvað ráðamenn í einstökum skólum vilja gera í þessum efnum, heldur sé fullt tilefni til að setja um þetta einhverjar samræmdar reglur og láta þar eitt yfir alla ganga, þannig að menn þurfi ekki af þessum ástæðum til dæmis að velja sér nám eða reyna að komast í nám á öðrum stöðum en hugur þeirra stæði kannski til og aðstæður þeirra byðu (Forseti hringir.) best upp á eingöngu vegna þess að ekki er samræmi hvað varðar kjörin að þessu leyti (Forseti hringir.) hjá háskólunum í landinu.