144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

nám og náms- og starfsráðgjöf fanga.

553. mál
[17:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu þótt stutt sé. Ég óttast að ég komi ekki báðum punktum mínum að á þessum skamma tíma en það er eitt sem ég hef áhyggjur af og annað sem mig langar að velta upp. Annars vegar er það að fangelsið á Hólmsheiði er hannað sem mikið öryggisfangelsi og ég hef ekki orðið var við að þar sé mikið gert ráð fyrir menntun, hvorki verklegri né bóklegri. Ég hef áhyggjur af því og vona að ég geti fengið hæstv. innanríkisráðherra fyrst og fremst til þess að létta af mér þeim áhyggjum mínum.

Hinn punkturinn varðar fjármögnun, en á síðasta þingi kom upp togstreita milli menntastofnunar, nánar tiltekið FSu, og forstöðumanna Litla-Hrauns um það hvernig nýta bæri fjármagn. Það var samdóma álit forstöðumanna FSu og Litla-Hrauns að fjármögnunin ætti í raun heima hjá innanríkisráðuneytinu þannig að þar væri hægt að ráðstafa fjármagni til menntunar fanga á forsendum þarfa þeirra í því efni en ekki menntunar í heild sinni. Mér þætti gaman að fá sjónarmið hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) í þeim málum.