144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

eftirlit með vistráðningu.

523. mál
[17:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa brýningu og deili því með henni að ég held að þarna sé breyttur veruleiki frá því sem var þegar þessi leyfi voru fyrst kynnt til sögunnar. Við þurfum að bregðast við honum. Ég tek það til mín og veit að nefndin um útlendingamálin mun gera það líka og er eflaust að því. Ég fylgist ekki með störfum hennar frá degi til dags, en ég veit að þau líta til þessara þátta líka.

Svo tek ég undir það sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði, sem er kannski rót þess að hv. þingmaður spyr, að það er mjög gagnlegt þegar við njótum þeirrar vinnu sem er unnin á vettvangi Norðurlandaráðs við þau störf sem við erum að sinna hér. Það er ekkert nema gott um það að segja og við þökkum fyrir það. Ég tek bara með mér úr þessum stól þá brýningu sem ég hef fengið hjá þingmönnum og við munum vinna að þessu máli til að gera þetta allt saman öruggara en það er.