145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

endurskoðun reglugerðar um útgáfu og notkun stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða.

517. mál
[16:24]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Mér er ljúft að svara þessari spurningu hv. þingmanns um þetta efni. Það er svo að endurskoðun á reglugerð um útgáfu og notkun stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða nr. 369/2000, stendur yfir í innanríkisráðuneytinu eftir ábendingu frá Sjálfsbjörg. Meðal þess sem stendur til að kanna er hvort draga megi úr þörf á endurnýjun stæðiskorta hjá þeim hópi fólks sem er með varanlega fötlun eða sjúkdóm. Í gildandi reglugerð er kveðið á um í 2. mgr. 4. gr. að stæðiskort skuli gefa út í tiltekinn tíma að hámarki í fimm ár en þó aldrei skemur en í tvö ár. Ef þörf er tímabundin er leyfilegt að gefa út kort til skemmri tíma.

Ef við horfum til sambærilegra reglugerða í nágrannalöndunum þá er í Noregi og Svíþjóð stæðiskort fyrir hreyfihamlaða gefin út tímabundið [Kliður í þingsal.] en að hámarki til fimm ára í senn eins og hér á landi. Noregur setur einnig tveggja ára lágmarkstíma sem þó má vera styttri í undantekningartilvikum.

Í Danmörku er hins vegar tíu ára gildistími að hámarki en með þeirri undantekningu að ef upplýsingar liggja fyrir um heilbrigði einstaklings eða aðrar aðstæður gefi … Mér líst vel á, virðulegi forseti, að þessir malandi menn fari í eitthvert annað herbergi. — Ef upplýsingar liggi fyrir um að heilbrigði einstaklings eða aðrar aðstæður gefi ástæðu til að ætla að skilyrði fyrir útgáfu stæðiskorts falli úr gildi innan tíu ára frá útgáfu eða að endurnýjun sé heimilt að stytta gildistímann. Ég vona að þetta hafi komist til skila þrátt fyrir þetta skvaldur.

Hæstv. forseti. Það þarf að kanna hvort lengja megi gildistíma stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða hér á landi í tíu ár með svipuðum skilyrðum og gert er í Danmörku, þ.e. ef ljóst er að engar breytingar eru fyrirsjáanlegar á hreyfigetu einstaklings. Verði það niðurstaðan mætti hafa áfram styttri gildistíma fyrir tímabundna þörf og jafnframt fella niður ákvæði um lágmarksgildistíma. Leiða má að því líkur að lengri gildistími stæðiskortanna yrði til sparnaðar fyrir ríkið og minnkaði verulega fyrirhöfn notenda.

Framangreind sjónarmið verða því m.a. höfð til hliðsjónar við endurskoðun á gildandi reglugerð. Innanríkisráðuneytið mun hafa náið samráð við hagsmunaaðila og viðeigandi stofnanir enda miðar endurskoðun reglugerðarinnar að því að samræma betur útgáfu kortanna, gildistíma og mat á umsækjendum.