145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

herferð SÍM um að borga myndlistarmönnum.

470. mál
[17:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin sem einkenndust kannski meira af nýjum spurningum og vangaveltum. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að samtalið þarf að eiga sér stað. Hann er sammála mér um að myndlistarmenn eigi að fá greitt fyrir vinnu sína eins og aðrir en þannig er það ekki eins og málum er háttað núna.

Hæstv. ráðherra dregur hér fram formlegar og fjárhagslegar ytri aðstæður málsins en ég spyr hæstv. ráðherra sem er pólitískur leiðtogi þessa málaflokks, þ.e. menningarmálanna eins og þau leggja sig og þar með myndlistarinnar: Hvað telur hann rétt að gera? Hvað telur hann að væri gott og verðugt markmið? Hann spyr: Viljum við auka framlag til myndlistar úr ríkissjóði um 90–100 milljónir á ári? Hvað finnst hæstv. ráðherra um það? Hvernig telur ráðherrann að þessu ætti að vera fyrir komið, þ.e. með hlut ríkisins, sveitarfélaganna, sjálfseignarstofnana o.s.frv.?

Síðast en ekki síst langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig eigi að vinna þetta samtal áfram. Nú hefur SÍM komið fram með þennan áfanga að samningnum og hæstv. ráðherra segir að samtalið þurfi að eiga sér stað og ég vek máls á þessu með spurningu hér á Alþingi. Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér að þetta verði unnið áfram þannig að sómi verði að.

Alveg í lokin langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort von sé á að skipað verði í stjórn myndlistarráðs og stjórn listskreytingasjóðs sem hefði þurft að vera búið að skipa fyrir um það bil mánuði. Það er þörf fyrir að ljúka þessu vegna þess að það eru tiltekin verkefni sem báðir sjóðirnir þurfa að leysa en geta ekki gert meðan ekki hefur verið skipað í stjórnirnar.