149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

Seðlabanki Íslands.

790. mál
[19:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Jú, þessar efasemdir hvörfluðu vissulega að mér fyrr í þessu ferli eins og ég fór hér yfir, þ.e. ég tel mjög þungvæg rök fyrir því að fjármálastöðugleiki og eftirlit með fjármálastöðugleika verði hluti af starfsemi Seðlabanka Íslands. Ég tók því þess vegna fagnandi þegar nefnd um endurskoðun á peningastefnunni, held ég að það hafi heitið, lagði til að fjármálastöðugleiki yrði eitt af meginhlutverkum Seðlabankans. Í því augnamiði yrði Fjármálaeftirlitið klofið upp og sá hluti þess sem fer með eftirlit með fjármálastöðugleika yrði færður inn í Seðlabankann.

Þegar við fórum nánar yfir málið, gáfum okkur tíma til þess, sannfærðist ég um þau sjónarmið að ekki væri rétt að aðskilja viðskiptaháttaeftirlitið og eindarvarúðareftirlitið, eins og ég orðaði það svo þjált hér áðan, með því að kljúfa upp Fjármálaeftirlitið. Ég tel meiri hagsmuni af því að við höfum stóra sameinaða stofnun sem hefur þetta miðlæga hlutverk í okkar efnahagsstefnu. Ég veit ekki hvort 300 manns eru of margt eða of fátt. Við erum með aðrar stórar stofnanir, hvort sem það eru háskólar eða spítalar eða hvað það er. Þetta getum við kallað okkar risastofnun á sviði efnahagsmála og ég held að hún verði sterkari eftir en fyrir.

Hver á að hafa eftirlit með þessari stofnun? Ja, við þurfum að taka það til okkar, Alþingi, sem velur bankaráð Seðlabankans sem hefur lögum samkvæmt eftirlit með því að Seðlabankinn fari að lögum eins og bankaráðið hefur verið að gera að undanförnu, bara svo ég vísi til nýlegra dæma. Að sjálfsögðu liggja síðan eftirlitsheimildir hjá forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti í því sem heyrir til fjármálamarkaða. Mér finnst spurning hv. þingmanns mjög eðlileg og hún leitaði líka á mig við upphaf þessa ferlis.