150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:57]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og hæstv. forsætisráðherra fyrir hennar orð. Ég held að það sé gagnlegt núna að ræða aðeins hvað við vitum og hvað við vitum ekki. Við vitum að þetta er óvenjuleg kreppa sem leggst á alla heimsbyggðina og að venjuleg kreppufræði og meðul hagfræðinga duga ekki til. Lögmál framboðs og eftirspurnar virkar ekki. Heilu atvinnugreinarnar stöðvast, þjóðfélagið hægir á sér og það dugir lítið að örva einkaneyslu, a.m.k. til skamms tíma. Fólki er ýmist bannað að nota þjónustu, það þorir það ekki eða hefur ekki áhuga á því.

Við vitum að afleiðingar þessa ástands geta jafnvel orðið enn þyngri fyrir Ísland en nágrannaþjóðirnar vegna þess að hér hefur ferðaþjónustan skilað óvenjuháum hluta verðmætasköpunarinnar. Við vitum að atvinnulíf okkar er of fábreytt. Við vitum hins vegar líka að við erum í betri færum en margir aðrir til að bregðast við þar sem við höfum þrátt fyrir allt borið gæfu til þess að standa fyrir mikilli samneyslu með öflugu opinberu heilbrigðiskerfi, góðum skólum og velferðarþjónustu þótt vissulega þurfum við að gera miklu betur.

Við vitum líka að jafnvel hægri sinnaðasta fólk áttar sig nú á að ríkisvaldið þarf að koma atvinnulífinu til bjargar. Það er rétt, það þarf að gera, beita skjótari og skilvirkari aðstoð sem þarf þó í ríkari mæli að beinast að fólki og heimilum. Við vitum hins vegar ekki hversu lengi þessi vinstri slagsíða hægri manna endist þótt okkur gruni það vissulega. Við vitum að það þarf að gera miklu meira, við höfum vitað í nokkurn tíma að það þarf að styðja betur við lítil fyrirtæki sem er bannað að veita þjónustu vegna samkomubanns. Stórtækari aðgerðir hafa einfaldlega beðið of lengi. Hið sama má segja um frekari aðgerðir fyrir heimili, leigjendur, atvinnulausa og námsmenn svo dæmi séu tekin. Á þetta hefur ítrekað verið bent, bæði af Samfylkingunni og öðrum stjórnarandstöðuflokkum, en við vitum það svo sem líka að ríkisstjórnin vill halda spilunum þétt að sjálfri sér og að aðkoma stjórnarandstöðuflokka á að einskorðast við þinglega meðferð mála. Hún kemur ekki að undirbúningi aðgerða. Við höfum þó lagt margt gott til og munum áfram vinna af heilindum, sýna aðhald, laga það sem laga þarf og leggja til nýjar aðgerðir. Það er snúnara að hjálpa til þegar ekki er veittur aðgangur að nauðsynlegum upplýsingum. Það mun tefja verkið. Það mun jafnvel auka skaða og er eiginlega ótækt í þessu ástandi.

Herra forseti. Ég trúði nefnilega að traust á stjórnmálum myndi aukast með víðtækari samvinnu stjórnmálahreyfinga á þessum fáránlegu tímum. Þess vegna þykir mér miður að ríkisstjórnin hafi ekki treyst sér til að eiga í nánara samstarfi við aðra flokka um aðgerðapakka handa heimilum og atvinnulífi. Flest okkar nágrannaríki hafa gert það.

Nóg um það, markmið heilbrigðisteymisins hefur verið að verja þau sem veikust standa gagnvart veirunni. Það hefur tekist mjög vel en það þarf líka að verða leiðarstefið í öllum efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Það gildir nefnilega líka á veirulausum tímum að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Þótt veiran setji allt í nýtt samhengi núna voru áskoranirnar risastórar áður en veiruskrattinn lét á sér kræla og það var talsvert farið að kólna í hagkerfinu. Þrátt fyrir góðæri síðustu ára búa nefnilega enn þá tugþúsundir manna við skort og ef ekki er haldið vel á spilunum mun þessi efnahagskreppa auka enn frekar ójöfnuð og fátækt í samfélaginu. Skynsamleg efnahagsstjórn felst í því að efla hvern einstakling og verja viðkvæmustu hópana. Þess vegna þurfa allar aðgerðir að taka mið af því. Á meðan ójöfnuður og fátækt sogar kraft úr samfélögum mun mikill jöfnuður ekki einungis leiða til friðsamlegra og kraftmeira samfélags heldur kemur sér einnig vel þegar syrtir í álinn. Það sjáum við þegar við horfum á löndin í kringum okkur og það munum við sjá enn frekar þegar lengra fram í sækir.

Í augnablikinu erum við sem sagt að slökkva elda en í framhaldinu þurfum við að hafa bæði kjark og framsýni til að ráðast í stórtækar breytingar á skattkerfinu, deila gæðum jafnar og tryggja að auðlindir okkar skili sér að fullu og af sanngirni til almennings. Það verður óhjákvæmilegt að þeir sem eiga meira leggi meira til og að þeir sem minna hafa á milli handanna leggi minna til. Þó að samstaða, samábyrgð og æðruleysi almennings vegi vissulega mjög þungt þegar við siglum hægt og rólega út úr þessari krísu hafa síðustu vikur sýnt okkur nauðsyn þess að leggja í sameiginlega sjóði þannig að við getum tryggt öfluga opinbera þjónustu. Þess vegna er einmitt ágætistími núna til að minna okkur á að skattgreiðslur eru vafalítið langbesta fjárfesting sem nánast hver einstaklingur ræðst í um ævina.

Á sama tíma og við þurfum að bregðast fljótt og örugglega við þurfum við líka að þora að horfa fram fyrir tærnar á okkur, líta jafnvel örlítið meira upp og til lengri framtíðar. Hvaða lærdóm getum við dregið af þessari erfiðu reynslu sem hjálpar okkur til að byggja upp betra samfélag í framtíðinni? Jú, við lærum að við verðum að styrkja sameiginlega innviði og tryggja nægilegt fé þannig að þeir gagnist vel í góðu árferði en geti líka tekist á við erfiðari þolraunir og það þarf að skjóta rótum undir miklu fjölbreyttara atvinnulíf, hlúa að því fíngerða og smáa, skapa fleiri störf sem byggja á hugviti. Til þess þurfum við að ráðast í byltingarkennda sókn í menntamálum.

Það kann auðvitað að virka nokkuð bratt að tala um hina lengri framtíð núna við þessar aðstæður en við höfum einfaldlega ekki efni á öðru. Tvö orð verða að verða leiðarljós í leiðangri okkar núna til framtíðar, jöfnuður og fjölbreytni.