150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:25]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Í umræðunni má greina ýmsa sameiginlega þræði, í fyrsta lagi hvað varðar aðgerðir vegna þeirra fyrirtækja sem hefur verið lokað af sóttvarnaástæðum. Svo er það framtíðarsýnin, þ.e. að það sem við gerum núna til að bregðast við ástandinu hafi líka merkingu fyrir framtíðina. Hér hefur hv. þingmönnum orðið tíðrætt um nýsköpun, þróun og rannsóknir. Margir hafa nefnt matvælaframleiðslu og skapandi greinar. Hv. þingmenn í ólíkum flokkum sjá augljóslega fyrir sér að við verðum ekki samt samfélag og það skiptir máli að hugsa til framtíðar í þeim aðgerðum sem við munum ráðast í. Þá hafa ýmsir félagslegir þættir verið nefndir, einangrun og einmanaleiki tiltekinna hópa, ekki síst aldraðra, heimilisofbeldi og barnavernd þar sem full þörf er á að bregðast við, ekki bara með uppbyggingu áfangaheimilis Kvennaathvarfsins heldur með aukinni vöktun á þeim málaflokkum, bæði barnavernd og heimilisofbeldi, sem og andlegt heilbrigði þjóðarinnar. Svona áfall reynir á andlegt heilbrigði fólks.

Ýmislegt fleira hefur verið nefnt, m.a. nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá. Ég ítreka að ég vonast til þess að næsti þingvetur verði ekki undirlagður veirufaraldri heldur getum við rætt nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá og mörg önnur þau mál sem ekki mun gefast tími til að ræða á þessum vetri.

Það var áhugavert sem hv. þm. Oddný Harðardóttir sagði hérna áðan, að svona tímar sýni úr hverju samfélög eru gerð. Ég er sammála henni um það. Það sem þessi reynsla sýnir okkur hvað varðar íslenskt samfélag er, eins og ég nefndi í ræðu minni, hversu sterkar grunnstoðir við eigum, almannavarnakerfið, heilbrigðiskerfið, skólakerfið, allt fólkið sem þar stendur í framlínu, sömuleiðis allt það fólk sem er í framlínunni og er útsett fyrir smiti en er ekki endilega starfandi innan þessara kerfa, til að mynda starfsfólk verslana sem hefur haldið hlutum gangandi. Leik- og grunnskólastarfi hefur verið haldið gangandi sem og framhaldsskóla- og háskólastarfi. Við eigum alveg ótrúlegan auð í fólkinu okkar fyrir utan allan þann auð sem við eigum í umgjörð og stjórn efnahagsmála. Síðan eigum við það sem Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent á menntavísindasviði við Háskóla Íslands, hefur kallað hið ósýnilega umhyggjuhagkerfi. Hún skrifaði góða grein um þetta á dögunum sem birtist í Kjarnanum. Kannski verður það lærdómurinn sem við drögum af þessari reynslu að hið ósýnilega umhyggjuhagkerfi haldi samfélögum uppi þegar á reynir, eins og við höfum séð á undanförnum vikum.