151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

viðurkenning á Anfal-herferðinni sem þjóðarmorði á Kúrdum.

592. mál
[19:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa tillögu, ég styð hana heils hugar. Það eru rúm 30 ár síðan fjöldamorðin á Kúrdum í Írak áttu sér stað og ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að gera svo vel grein fyrir því með hvaða hætti þetta var gert, með skipulögðum hætti af hálfu stjórnvalda, Saddam-stjórnarinnar í Írak og engum var hlíft, hvorki konum né börnum. Enn í dag hefur ekki verið hægt að bera kennsl á jarðneskar leifar fjölmargra fórnarlamba og það hefur að sjálfsögðu enn aukið á þjáningar þeirra fjölmörgu fjölskyldna sem eiga um sárt að binda vegna þessa voðaverknaðar. Eins og hefur komið fram áður þá voru það a.m.k. 100.000 Kúrdar sem voru drepnir í stjórnartíð Saddams Husseins en talið er að fórnarlömbin geti verið allt að 180.000 og þúsunda er enn saknað og heilu þorpin voru jöfnuð við jörðu. Saddam-stjórnin sveifst einskis gegn Kúrdum og notaði m.a. efnavopn gegn saklausum borgurum, konum og börnum. Þeir sem urðu vitni að þeim grimmdarverkum hafa lýst því hvernig fórnarlömb efnavopna liðu vítiskvalir í dauðastríði. Það sem þarna átti sér stað fyrir einungis 30 árum, það er ekki lengra síðan, svipar til helfararinnar gegn gyðingum. Og það er ekki lengra en síðan 2019 sem nýjustu fjöldagrafirnar hafa fundist, en þá fundust fjórar fjöldagrafir í norðurhluta Íraks.

Það er líka rétt að beina sjónum að núverandi stjórnvöldum í Írak vegna þess að þau hafa sætt gagnrýni fyrir óvarlega meðferð á líkamsleifum sem hafa fundist í fjöldagröfum og fyrir áhugaleysi við að greina jarðneskar leifar fórnarlambanna. Í sumum tilvikum virðast stjórnvöld í Írak vilja sem minnst af málinu vita og hafa ekki staðið sig í því að hafa upp á og refsa þeim sem tóku þátt í fjöldamorðunum. Það væri því eðlilegt að koma því einnig skilmerkilega á framfæri á alþjóðavettvangi og héðan frá Íslandi.

Ég fagna þessari tillögu, herra forseti, um að viðurkenna fjöldamorð á Kúrdum. Það var kerfisbundið reynt að útrýma Kúrdum í Írak. Alþjóðleg viðurkenning á þjóðarmorðum eins og gagnvart Kúrdum í Írak er mikilvæg. Inn á það er m.a. komið í greinargerð með þessari tillögu. Það er ekki síst mikilvægt til að sporna við áframhaldandi skerðingu á mannréttindum Kúrda í löndum á borð við Tyrkland, Írak og Sýrland.

Ég hefði svo sannarlega viljað sjá ríkisstjórnina standa að þessari tillögu. Rödd okkar á að heyrast á alþjóðavettvangi í málum sem þessum. Við Íslendingar, okkar litla land á alþjóðavettvangi, njótum trausts meðal annarra þjóða. Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að við höfum heilmikil tækifæri á alþjóðavettvangi til að láta gott af okkur leiða í friðarmálum, vannýtt tækifæri af hálfu íslensku utanríkisþjónustunnar. Vonandi eigum við eftir að sjá það innan ekki svo langs tíma að Ísland verði friðflytjandi á alþjóðavettvangi og nái að miðla málum milli stríðandi fylkinga. Það er hlutverk sem Ísland gæti svo sannarlega sinnt með miklum sóma vegna þess að við erum þjóð sem hefur ekki her og hefur ekki hergagnaframleiðslu og njótum, eins og ég sagði, trausts á alþjóðavettvangi, það hefur m.a. komið fram í ræðu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Ég vil nota tækifærið, herra forseti, þegar fjallað er um fjöldamorðin á Kúrdum í Írak, til að minnast á mikilvægi þess að Ísland viðurkenni þjóðarmorðið á Armenum á árunum 1915–1917. Hér á Alþingi hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til að fá samþykkta þingsályktunartillögu um að Alþingi viðurkenni þjóðarmorðið á Armenum. Það hefur ekki gengið eftir og er það miður að mínum dómi. Fjölmörg lönd hafa viðurkennt þjóðarmorð Tyrkja á Armenum. Þar má nefna Svíþjóð og Danmörk en Ísland er ekki, því miður, þar á meðal.

Nú gerðist það fyrir skömmu að Bandaríkjamenn viðurkenndu þjóðarmorð á Armenum og er það mjög svo ánægjulegt. Um síðustu helgi var alþjóðlegur minningardagur um þjóðarmorðið á Armenum. Kristnir Armenar voru pyntaðir og teknir af lífi. Fólkið var rekið fótgangandi langar vegalengdir, jafnvel um þúsund kílómetra, með þeim afleiðingum að margir létust eða hlutu örkuml. Algengt var að aldraðir og veikir væru drepnir á leiðinni því að þeir hægðu á hópum og líkin lágu meðfram vegum mánuðum saman. Það eru skelfilegar lýsingar af því sem fólk gekk í gegnum á þessum tímum. Þó að langt sé um liðið var þetta glæpur gegn mannkyni, gegn okkur öllum, glæpur sem mun aldrei gleymast.

Mér finnst rétt að minnast á þetta hér, herra forseti, nú þegar þessi ágæta tillaga er hér til umfjöllunar. Ég vil bara segja að lokum að ég vona svo sannarlega að þessi tillaga verði samþykkt. Það yrði Íslendingum til sóma. Ég þakka fyrir þessa tillögu og þakka sérstaklega hv. þm. Smára McCarthy fyrir hans framgöngu í þessu máli.