Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[16:09]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Hér er um gríðarlega mikið hagsmunamál að ræða. Flugsamgöngur eru mikilvægur þáttur í íslensku hagkerfi. Greiðar flugsamgöngur til og frá landinu á sanngjörnu verði hafa leikið lykilhlutverk í vexti ferðaþjónustunnar á undanförnum árum og hefur í raun og veru gert frá upphafi millilandaflugs á Íslandi. Lega landsins miðja vegu milli Evrópu og Norður-Ameríku hefur þau áhrif að landið er vænlegur áfangastaður fyrir millilendingar og tengiflug. Þá nýta flugfélögin sérstöðu Íslands vegna flugtenginga og sem áhugaverðs áfangastaðar til að bjóða ferðamönnum upp á svokallað „stopover“, en í því felst að ferðamenn á leið til Evrópu frá Ameríku geta dvalið á Íslandi í allt að eina viku án þess að auka við flugkostnað sinn. Þetta er grunnurinn undir rekstri flugfélagsins Icelandair sem hét áður Flugleiðir.

Varðandi þessa loftslagsskatta ESB á millilandaflug þá virðist regluverkið taka tillit til eða horfa á þá frá meginlandi Evrópu, eins og hér kom fram í máli hv. þm. Ingibjargar Isaksen. Við erum eyja í Norður-Atlantshafi og við eigum raunverulega að vera skattfrjáls hvað þessa loftslagsskatta varðar. Ljóst er að Evrópusambandið hyggst draga úr fjölda gjaldfrjálsra losunareininga í þrepum og mun það hafa þau áhrif að flugfélög munu þurfa að greiða meira fyrir losunarheimildir vegna flugs til og frá Íslandi. Augljóst er að Ísland getur ekki keppt við amerísk flugfélög á leiðinni yfir Atlantshafið á jafnréttisgrundvelli með loftslagsskatta ESB í farteskinu. Það er algerlega útilokað. Þá er Ísland ekki að keppa á jafnréttisgrundvelli. Bandaríkin og Kína neituðu að ganga inn í losunargjaldakerfið á sínum tíma og það horfir til mikils rekstrarlegs aðstöðumunar milli flugfélaga hvað þetta varðar, þ.e. á milli amerískra flugfélaga annars vegar og íslenskra flugfélaga hins vegar. Flugfélögin munu menga án gjalds og hraða hnattrænum loftslagsbreytingum og ógn af þeirra völdum. Önnur flugfélög eru hins vegar skyldug til að sæta ábyrgð vegna mengunar. (Forseti hringir.)

Ég skora á utanríkisráðherra að neita upptöku þessara loftslagsskatta og gæta hagsmuna af fullum krafti eins og kom fram í máli hv. þingmanns hér áðan.