Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[16:28]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan þá er hér um gríðarlega mikið hagsmunamál að ræða fyrir mikilvæga og merka atvinnugrein á Íslandi sem er núna ein helsta undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Ég minntist á hér áðan að Bandaríkjamenn og Kínverjar hefðu ekki undirritað reglur um losunargjaldakerfið á sínum tíma. Það þýðir að bandarísk flugfélög munu ekki þurfa að greiða losunargjald. Það er ekki nóg með það, Bretland hefur sitt eigið losunarkerfi sem er ótengt ETS-kerfinu. Fari svo að verð á flugmiðum hækki meira á Íslandi en í Bretlandi þá gefur augaleið að flugfarþegar munu frekar kjósa að fljúga á milli Evrópu og Bandaríkjanna með millilendingu í Bretlandi heldur en millilendingu á Íslandi. Það er óumdeilt að þessi skattur mun hafa áhrif á flugmiðaverð til og frá Íslandi, erfitt að segja hversu mikið, en það er ekki óhugsandi að verð á flugmiðum geti hækkað um 11.000 kr. Það yrði mjög íþyngjandi fyrir samkeppnishæfni íslenska flugiðnaðarins, íslenska fluggeirans, og hann mun hvorki geta staðist samkeppni við bresk flugfélög né amerísk flugfélög á leiðinni yfir Norður-Atlantshafið. Svo einfalt er það. Þess vegna er svo mikilvægt að íslensk flugfélög séu ekki undir oki Brussel hvað þetta varðar, undir þessum loftslagssköttum. Það mun engu breyta varðandi flugið milli Evrópu og Bandaríkjanna yfir Norður-Atlantshafið að það verði ekki tengiflug til Íslands. Flug milli Evrópu og Bandaríkjanna mun ekki minnka með nokkrum einasta hætti. Það mun bara ekki fara í gegnum Ísland. Þá mun íslenskum störfum fækka í þessum geira og íslensku flugfélögin verða ekki samkeppnishæf. Þetta er því gríðarlega mikið hagsmunamál og ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að standa í lappirnar og ekki láta Brussel-valdið troða þessu ofan í okkur eina ferðina enn, eins og var gert með þriðja orkupakkann. Þetta er mjög eðlislíkt dæmi. Regluverk innri markaðar EES, (Forseti hringir.) regluverk ESB, miðast við meginland Evrópu, ekki við eyju í Norður-Atlantshafi. Það vita allir hvar Ísland er statt í heiminum.