Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[16:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Hér hefur mikið verið talað um það hvernig íslensk stjórnvöld virðast hafa sofið á verðinum í Brussel gagnvart reglum sem voru fyrirsjáanlegar með margra ára fyrirvara. Það verður síðan til þess að viðbrögð stjórnvalda verða harðari en þau þyrftu ella að vera. Það er þessi óþægilega tilfinning sem fylgir því að ráðherrar ríkisstjórnarinnar virðast vera að taka í einhverjar handbremsur í máli sem í grunninn snýst um að byggja undir aðgerðir í loftslagsmálum sem, ef það næst að útfæra það vel, á bara að vera hið besta mál. En íslensk stjórnvöld eru bara allt í einu hrópandi gegn þessu vegna þess að þau fylgdust ekki nógu vel með. Það þurfti ekki að fylgjast sérstaklega með ETS í flugi vegna þess að þetta er hluti af, eins og fram hefur komið, „Fit for 55“-pakkanum þar sem Ísland er ofið inn í þann pakka úti um allt. Við tökum megnið af því regluverki yfir til okkar í gegnum EES-samninginn. Það hefur t.d. legið fyrir að það þarf að semja um hlutdeild Íslands í sameiginlegri skuldbindingu Evrópusambandsins, Noregs og Íslands varðandi samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem „Fit for 55“-pakkinn snýst um að ná fram. Af hverju eru þeir fundir ekki nýttir til að ræða aðeins um ETS? Eða er fólk kannski ekkert að hittast til að ræða sameiginlegar skuldbindingar sem var ákveðið fyrir tveimur árum að takast á? Ég nefnilega hallast frekar að því, að fólk sé ekkert að hittast, að ástæðan fyrir því að við fáum hæstv. umhverfisráðherra aldrei til að svara okkur hver landsmarkmið Íslands í loftslagsmálum séu, við fáum hann aldrei til að segja okkur hvenær hann ætli að koma með nýjan loftslagsáætlun, sé einfaldlega vegna þess að þessi mál eru í frystikistu hjá ríkisstjórninni og hún hefur ekki talað við makkerinn í Brussel, hinn aðilann í sameiginlega verkefninu sem Ísland vinnur með Evrópusambandinu og Noregi. (Forseti hringir.) Og þetta rugl sem allt í einu spannst upp í kringum ETS-kerfið endurspeglar bara þetta sinnuleysi.