154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

heilbrigðiseftirlit.

39. mál
[16:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Eitt af algengustu umkvörtunarefnum atvinnurekenda við mig er heilbrigðiseftirlit. Hvert sem ég kem, ekki síst á landsbyggðinni, kvarta litlir og meðalstórir atvinnurekendur yfir þungu regluverki og smásmugulegu eftirliti, eftirliti sem getur verið háttað með mjög ólíkum hætti milli eftirlitssvæða. Sögur af kröfum um vaska og eftirlit með vaskanotkun og uppsetningu standa upp úr. Vinnustaður þar sem eru mun fleiri vaskar en starfsmenn og heilbrigðiseftirlitið lætur síðan vatnið renna til að sannreyna hversu fljótt heitt og kalt vatn kemur — það er nefnilega vísbending um að vaskar séu í notkun. Hæstv. umhverfisráðherra er mikill áhugamaður um eftirlitsbáknið — og vaska, ég þykist nú vita það. Það liggur því beinast við að spyrja hann beint út hvort hann sé ekki örugglega enn þá á þeirri skoðun að heilbrigðiseftirlitið flækist of mikið fyrir atvinnurekendum og þá hvort og hvað hann ætli að gera til að einfalda regluverkið um það.