132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Dómur í Baugsmálinu.

[10:40]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég náði reyndar ekki innihaldi ræðu hæstv. dómsmálaráðherra þannig að ég get ekki tjáð mig um það sem þar kom fram en það breytir ekki hinu að þetta mál sem dómur féll í í gær er mjög athyglisvert og hefur haft mikil áhrif á íslenskt samfélag undanfarin ár. Sú niðurstaða sem kom í gær hlýtur að vera ákæruvaldinu verulegt áfall og hún dregur það fram að burðarvitni þess máls virðist ekki hafa staðið undir þeim væntingum sem ákæruvaldið gerði til þess.

Ég held, virðulegi forseti, að í framhaldi af þessu máli, hvort sem það verður gert nú eða síðar eftir að hugsanlegur hæstaréttardómur fellur ef máli verður áfrýjað, sé afar mikilvægt að þær miklu ásakanir sem liggja í loftinu og m.a. sakborningar hafa velt upp um tilurð málsins fái einhverja skoðun, og einnig hitt að eins og þetta mál birtist okkur virðist manni það embætti sem rak málið ekki í stakk búið til að takast á við svona stórmál sem er geysilega mikilvægt. Trúverðugleiki íslensks fjármálalífs sem víða er til umræðu í fjölmiðlum, hérlendis og annars staðar, stendur að miklu leyti með því að eftirlitsstofnanir geti tekist á við þau mál sem upp kunna að koma.

Þess vegna tel ég, virðulegi forseti, afar mikilvægt að í kjölfar þess og þegar þessu máli lýkur, hvort sem því lýkur nú eða síðar, fari fram opinber skoðun (Forseti hringir.) á því hvernig þetta allt saman hefur átt sér stað.