132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[11:05]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Í markmiðsgrein þessa lagafrumvarps er það tekið mjög skýrt fram í upphafsorðum að markmið laga þessara sé skýrt eignarhald á vatni. Í 2. gr. frumvarpsins er talað um gildissvið og þar segir:

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Þetta er altæk niðurstaða um eignarhald. Þeir sem hafa kosið sér sauðargæruna í sölum Alþingis og haldið því fram að þetta hafi enga þýðingu hafi nú skömm fyrir að mínu mati því að auðvitað snýst þetta um eignarhald, skýrt eignarhald eins og menn þorðu að segja í upphafi en þora ekki lengur að segja fullum fetum.

Nú halda menn því fram að þetta sé einungis formbreyting sem hér er á ferðinni en niðurstaðan frá 1923 var samstaða um að afmarka allan nýtingarrétt í þeim lögum sem sett voru og það hefur staðið síðan. Sú aðferð ætti að vera höfð hér en er ekki höfð.