132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Munnleg skýrsla utanríkisráðherra um varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna.

[12:36]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta var satt að segja alveg ótrúleg ræða hjá hæstv. dómsmálaráðherra sem hann flutti hérna á 10 mínútum. Allt af því sem hann sagði að nú ættu menn að fara að velta fyrir sér, fara að skoða og reyna að finna lausnir á hefur Samfylkingin síðustu fimm árin bent á að ætti að vera aðfari að þeirri stöðu sem núna er uppi.

Eitt var þó rétt sem hæstv. dómsmálaráðherra sagði. Hann sagði að þau tíðindi sem gerðust í gær þyrftu ekki að koma neinum manni á óvart. Það var alveg hárrétt. Þetta hefur legið í straumi tímans og það hafa allir skilið nema einn maður. Hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki skilið það. Þegar hæstv. dómsmálaráðherra heldur ræðu sína um að hugsanlega væri hægt að tala við Breta, kannski ætti líka að tala við Dani og svo væri örugglega líka hægt að tala við Færeyinga, eru þetta allt saman vangaveltur sem koma fram af skyndingu þegar menn standa allt í einu andspænis vandamáli og þeir hafa ekki hugsað fyrir hvernig á að leysa það.

Frú forseti. Við höfum alltaf sagt það og verið sammála, stóru flokkarnir hér á þingi, um að burðarásar í utanríkisstefnu Íslendinga eigi að vera Atlantshafsbandalagið og varnarsamningurinn líka. Við höfum líka alltaf verið sammála um eina túlkun á varnarsamningnum. Við, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, höfum túlkað það svo að í varnarsamningnum frá 1951 felist að ekki sé hægt að taka einhliða ákvarðanir um viðbúnað hér á landi. Það hefur verið burðarásinn í viðhorfi okkar til varnarsamningsins sem sjálfstæðrar þjóðar að þarna væru tveir að leik og báðir þyrftu að ná sameiginlegri niðurstöðu.

Hæstv. dómsmálaráðherra sagði sjálfur í kjölfar atburðanna vorið 2003 að Bandaríkjamenn hefðu ekki rétt til að taka einhliða ákvörðun. Hæstv. dómsmálaráðherra ræddi ekkert um þetta núna. Hæstv. utanríkisráðherra, sem er kvíðinn og örvæntingarfullur yfir því að hafa fallið á sínu fyrsta prófi sem formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ekki nefnt það heldur. En þannig er það. Það sem gerðist núna, samkvæmt þeim skilningi sem flokkarnir þrír hafa alltaf lagt í varnarsamninginn frá 1951, er að Bandaríkjamenn brutu samkomulag.

Þegar hæstv. ráðherrar tala um að það sé merkilegt að formaður Samfylkingarinnar skuli ekki tala um Atlantshafsbandalagið eða varnarsamninginn liggur það alveg skýrt fyrir í landsfundarsamþykkt Samfylkingarinnar að þetta tvennt hefur að okkar viti verið burðarásar í hinni sameiginlegu utanríkisstefnu. En hverjir setja spurningarmerki við varnarsamninginn í dag? Það er hæstv. utanríkisráðherra sem kemur í fjölmiðla og spyr: Er eitthvert hald í varnarsamningum ef ekki eru sýnilegar varnir? Forveri hans, Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, tók miklu skýrar til orða. Hann sagði einfaldlega: Fari þeir sem fara vilja, þegar við lá að hér kæmi fram fyrir nokkrum missirum að hér yrðu engar þotur.

Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins talaði líka alveg skýrt. Hann sagði: Það er ekkert hald í varnarsamningnum ef hér verða ekki fjórar þotur. Þá skipti engu þótt þetta væru vopnlausar þotur sem tæki 12 tíma að gera í stand til að komast í loftið. Það eru þessir menn, sérstaklega hæstv. utanríkisráðherra í ræðu sinni áðan og í Morgunblaðinu í dag, sem setja spurningarmerki við varnarsamninginn. Það er eðlilegt. Varnarsamningurinn er í uppnámi. Það er svo einfalt mál. Hann er að vísu svo úr garði gerður að alltaf hefur þurft að túlka hann með bókunum. Það hefur engin bókun verið í gildi í fimm ár. Undir forustu Sjálfstæðisflokksins hefur ekki tekist að ná fram neinni niðurstöðu.

En það sem er merkilegt við atburðarásina núna er að hún sýnir ótvíræðan dómgreindarbrest hjá hæstv. utanríkisráðherra. Hann hefur komið hingað aftur og aftur og sagt að það væri landsýn í málinu. Hann var t.d. spurður að því í útvarpi 17. nóvember hvort hann teldi að varnarliðið væri að fara. Alls ekki. Hann taldi góðar vonir til að það héldi áfram dvöl sinni hér á landi. Hann hefur greinilega annað mat en hæstv. dómsmálaráðherra segist nú hafa lengi haft.

Hæstv. utanríkisráðherra kom glaður og reifur í fjölmiðla í byrjun febrúar. Hann hafði þá hitt vini sína. Hann hafði hitt Nicholas Burns aðstoðarutanríkisráðherra og gerði mikið úr hinu persónulega sambandi sínu við hann. Nicholas Burns hafði sagt hæstv. utanríkisráðherra að hann skyldi bara vera rólegur, málin væru á góðri leið.

Enn kom hæstv. utanríkisráðherra í fjölmiðla, sýnu reifari. Hann hafði hitt Condoleezzu Rice. Hann hafði borðað með henni kvöldverð á NATO-fundi og hún hafði fullvissað hann um að samningar væru í gangi.

Frú forseti. Þeim manni sem stýrði viðræðum Íslendinga við Bandaríkjamenn mátti vera ljóst hvað var í bígerð þegar Bandaríkjamenn, öllum að óvörum, settu fram svo óbilgjarnar kröfur að sendinefnd hæstv. utanríkisráðherra rauk á dyr af því að hún átti ekki von á þessum viðbrögðum. Máttu menn þá ekki skilja hvað væri í gangi? Að sjálfsögðu. En það var dómgreindarbrestur hjá hæstv. utanríkisráðherra að skilja þetta ekki og halda áfram að gefa rangar vísbendingar til okkar Íslendinga. Hann mat stöðuna vitlaust.

Hæstv. dómsmálaráðherra segir hér að í ráðuneyti hans hafi verið gerð áætlun um viðbúnað. Sú áætlun, um eflingu Landhelgisgæslunnar, um eflingu flugflotans, er nákvæmlega það sama og kemur fram í skýrslu sem hópur á vegum Samfylkingarinnar undir forustu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur lagði til.

Það sem hæstv. ráðherra er núna að tala um, samstarf við Dani, er nákvæmlega sama og við höfum sagt áður. Nú kemur hæstv. dómsmálaráðherra og segir: Við höfum sýnt mikla fyrirhyggju. Hafi hann sýnt fyrirhyggju er a.m.k. ljóst að það er til staðfesting á prenti á því að hæstv. utanríkisráðherra tók ekki undir þá fyrirhyggju.

Þegar Georg Lárusson, yfirmaður Landhelgisgæslunnar, lagði fram hugmyndir sínar í erindi, um eflingu Landhelgisgæslunnar, til að vera viðbúinn þeirri stöðu sem núna er komin upp og sagði að við þyrftum nýtt skip, þrjár þyrlur og ýmislegt fleira kom hæstv. utanríkisráðherra og nánast setti ofan í við yfirmann Landhelgisgæslunnar. Hann sagði að það væri ótímabært. Hann var spurður að því af Ólöfu Rún Skúladóttur í Ríkisútvarpinu hvort hann teldi ekki nauðsynlegt að gera a.m.k. áætlanir um þetta og hæstv. utanríkisráðherra svaraði nei. Hann teldi það ekki. Það er í því viðtali sem hann enn einu sinni endurtekur að hann telji að varnarliðið sé ekkert að fara þegar allir á Íslandi, meira að segja hæstv. dómsmálaráðherra, telja að herinn sé að sjálfsögðu á förum.

Það er alveg ljóst að þeir sem hafa haldið á þessu máli fyrir Ísland hafa haldið illa á því. Þeir hafa sýnt dómgreindarbrest. Þeir hafa sýnt fyrirhyggjuleysi. Þetta er áfall fyrir utanríkisstefnu Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf reynt að draga upp þá mynd af sér gagnvart þjóðinni að hann væri farsæll og traustur flokkur stöðugleika í efnahagsmálum og varnarmálum. Við sjáum stöðugleikann í efnahagsmálunum með því að fylgjast með flugi krónunnar upp og niður þessa dagana.

Núna, frú forseti, sjáum við stöðugleika Sjálfstæðisflokksins í varnar- og öryggismálum. Sú skýrsla sem hæstv. dómsmálaráðherra með réttu vísaði til að hefði verið sett fram 1999 fól í sér mjög jákvæðar og góðar leiðbeiningar til framtíðar. Hvað hefur verið gert með hana? Ekkert. Þar segir t.d. að það eigi að endurmeta stöðuna á fimm ára fresti. Það hefur ekki verið gert. Núna standa þessir herramenn og velta fyrir sér hvort rétt sé að gera hitt eða þetta sem þeir áttu fyrir lifandis löngu að vera búnir að gera.

Hæstv. utanríkisráðherra verður að tala skýrt. Hvaða gildi sér hann í varnarsamningnum? Hann hefur sjálfur sagt að ef þoturnar verða ekki hérna sé ekkert hald í honum. Hann hefur sjálfur talað um sýnilegar varnir. Hvað dugar honum sem sýnilegar varnir? Hvað vill hann leggjast lágt? Er nóg að hafa bandaríska fánann og nokkra húskumbalda?